Tuesday, December 19, 2006

Gullmolar frá börnunum mínum

Ég og dóttir mín vorum að ræða málin, ég sagði henni að þeir sem að stela fá ekki vængi þegar þeir verða englar. Hún var auðvitað langt á undan mér í þeim efnum, og svarið var á þessa leið: mamma, ég fæ bara vængi hjá ömmu minni sem heitir eins og ég!! (Laufey langamma hennar sem er látin). málið leyst og við getum rænt KB banka við næsta tækifæri!!


Og svo var það hann sonur minn sem var SVO ánægður þegar hann sá nammið sem ég keypti handa honum fyrir litlu jólin í skólanum í dag. Viðbrögðin voru þessi:

mamma ég ELSKA þig....alveg á FULLU :D

Friday, December 15, 2006

Happy hour!


Krakkarnir eru í afmæli hjá bekkjarfélaga, og það þýðir happy hour fyrir mig á meðan :) he he, þetta er orðið afskaplega ljúft, þarf ekki lengur að fara með þeim í afmælin og elta þau um allt pleisið með súkkulaði og kók yfir mig alla.

allt gott að frétta, það féll þessi dúnamjúki jólasnjór í gær, og þetta er bara nánast eins og púður, ekkert smá flott að sjá hvað allt er yndislegt og fallegt með öllum jólaljósunum.... já ég er svo mikið jólabarn inn við beinið að ég á það til að fá kökk í hálsin á þessum árstíma. Er líka að smita börnin af þessari jólaveiki því ég dreg þau í bíltúra nokkrum sinnum í viku bara til að skoða jólaljósin í öllum gluggum og dást að útiskreytingum og ljósum.

Jólasveinninn er smátt og smátt að rýja mig inn að skinni, en þetta er bara svo rosalega gaman. Sonur minn kom í morgun og vakti mig, snöktandi með skeifu, "ég er ekkert rosalega glaður mamma" jólasveinninn hafði gefið honum playmo dót, og í kassanum var lítið barn í kerru, systir og pabbinn.... engar byssur og ekki eitt einasta sverð!!!!! ...hmmm.... !!

Ég held ég þurfi að fara komast eitthvað út, hitta fólk.... ég er gjörsamlega að loka mig inni og safna sleni... þetta bara gengur ekki, þarf líka að fara að hreyfa mig.. en það er seinni tíma vandamál.......ha.....hmmm.......

Monday, December 11, 2006

Vúhúú!! Jólasveinninn er að koma!!

Við erum að rifna úr spennu hérna, og allir búnir að vera þvílíkt stilltir góðir í dag, he he :) örugglega sælutíð hjá foreldrum þessa dagana, enda jólasveinninn notaður sem grýlan sjálf.
Þau skrifuðu bæði bréf þar sem þau báðu um eitthvað fallegt í skóinn og Sigurbjörg hjálpaði bróður sínum að skrifa afsökunarbréf til sveinka fyrir að hafa ekki verið nógu góður að fara að sofa í gærkvöldi :) voða sætt, og að sjálfsögðu bráðnar jóli þegar hann les þetta og treður skóinn af alltof dýru dóti... svona er ísland í dag!!

Það varð ekkert úr bæjarferð hjá okkur, veðurspáin hljómaði ekki vel og ég var hrædd um að verða úti þarna í borginni og komast ekki heim. Svosem ekkert merkilegt sem þurfti að gera þar hvort eð er, ikea getur beðið fram í janúar... i guess..

Hann litli bróðir kom með flakkarann sinn, eða twixinn sinn eins og hann kallar þetta tæki sem er eitthvað nýtt, skilst að þetta sé bara einn risastór geisladiskur eða eitthvað....anywho, hann fyllti hjá mér tölvuna af bíómyndum, og þáttum og ég sit LÍMBBBBD við skjáinn langt fram á nótt!! Fékk svona líka netta ábendingu frá syni mínum pjattrófu í dag þegar hann kallaði úr eldhúsinu "mamma!! afhverju er allt út í mylsnu útum allt gólfið????" Ég stóð upp og ryksugaði... kannski fæ ég þá eitthvað í skóinn líka :D

Wednesday, December 06, 2006

fullt af dögum til jóla...nenni ekki að telja..

Fórum í dag að hitta jólasveinana og sjá kveikt á jólatrénu okkar í litla miðbænum okkar....ef við hefðum bara öll verið með glimmer á kinnum, hefði þetta litið út eins og atriði úr amerískri bíómynd...þið vitið hvað ég meina, lítill smábær þar sem allir eru vinir og hittast á einum stað og gleðjast :D sá þetta alveg fyrir mér!! Kallarnir í útprjónuðum peysum sem litlu konurnar þeirra......ókei ég skal hætta núna, hí hí hí ;)
Annars var ég mest bograndi um að skoða öll litlu börnin og hundana, svo þetta var bara mjög skemmtilegt. krakkarnir skemmtu sér vel, heilsuðu upp á sveinana og fengu lítinn nammipoka. Hún Sigurbjörg mín teiknaði meira að segja mynd handa einum þeirra. Hún er orðin svo mikil listakona, ég var hálf orðlaus þegar hún sýndi mér myndina, reyndar mjög venjulegur jólasveinn, en það sem mér fannst svo merkilegt var að hún teiknaði sjókorn sem hún litaði ljósblá með klessulitum og síðan renndi hún hendinni yfir myndina frá vinstri til hægri svo það leit út eins og hríð!! Kom svona frábær hreyfing á myndina sem verður fyrir vikið mun skemmtilegri :)
Ég man ekki eftir að hafa verið svona ógurlega listræn 7 ára gömul.

Jæja nóg um grobbið, annars allt í góðu hér. Er eitthvað að spá í bæjarferð en var varla búin að sleppa þeirri hugsun þegar byrjaði að snjóa, svo við sjáum til á föstudag.

nenniði að faxa til mín eins og einni sort af smákökum!!!!!!!!!!!!! ......nenni ekki að baka... :/

kv letilúði

Saturday, December 02, 2006

Þreytt...

Vaknaði í nótt með mígrenishausverk og vakti til 6 í morgun, svo ég er búin að vera dottandi í sófanum í allann morgun. Hrökk upp eitt skiptið við að ég var að segja syni mínum að ég væri upptekin ef ég væri að tala í símann og hann mætti ekki trufla mig...en Jói var hvergi sjáanlegur.. hann var inn í herbergi að leika við frænda sinn :/ alveg ótrúlegt hvað ég bulla og bulla þegar ég sofna í sófanum.

Við erum svo á leið í skólann í jólaföndur kl.1 og krakkarnir mjög spennt, þetta verður örugglega mjög gaman.

hef þetta bara stutt í dag :)

Tuesday, November 28, 2006

Jóla jóla

Helgin var yndisleg, ég held ég hafi bara sofið í fjóra daga, ekkert smá næs. Krakkarnir fóru til pabba síns, og fóru með flugi!!!! Ég átti mjög erfitt með þetta ferli, flugvélin svo lítil að varla var hægt að standa þarna uppréttur og krílin mín ennþá svo lítil að fara svona ein... en allt fór vel þó flugvélin væri við það að fara af stað með mig innanborðs... ég HÉLT nú ekki! Æpti NEIIIII, því að það var búið að loka hurðinni og taka tröppurnar. Það var alls ekki góð tilfinning að horfa á eftir flugvélinni fara á loft með allann minn fjársjóð..

Núna er komin jólafílingur og ég alveg skemmtilega flækt í eins og 10 stykki af seríum, en þetta er alveg rosa gaman og þessi bær hérna breytist í lítið jólaland í desember, seríur í öllum gluggum, trjám og fánastöngum.

Ég og Þórunn fórum til Lindu og föndruðum tvö kvöld í röð, höfðum það alveg roalega gott og vorum mjög duglegar, svo þið eigið von á ansi flottum jólakortum verð ég að segja... ef ég kemst útá pósthús með þau, það hefur reynst þrautinni þyngra að koma þessu í póst, maður er alltaf á leiðinni þar til það er skyndilega komin aðfangadagur, kortin ennþá uppá örbylgjuofninum og ég enda með að senda sms kveðjur... :/

Svo var hérna stormur í nótt og ég svaf heilan hálftíma... var alla nóttina að bíða eftir að fá rúðurnar upp í rúm til mín, þetta var alveg svakalegt, og ég þurfti að moka mig út í morgun vegna þess að snjórinn fauk allur upp að útidyrunum.

Wednesday, November 22, 2006

Þetta gengur ekki lengur!!

Nú þarf að bretta upp ermar og setja í gírinn, hér bíða jólaseríur í röðum eftir að komast í glugga. Og þetta er sko engin blokkaríbúð sem ég er í lengur!!! Svo erum við systurnar að spá í Akureyrarferð fljótlega og klára innkaupin, það er alveg ágætt að versla á glerártorginu, þar er rúmfatalagerinn, byko og svo litlar sérverslanir, svo er náttla bónus, hagkaup og húsó þarna líka, svo þetta verður fín dagsferð :)

Fór með krakkana í dag á foreldrafund í skólanum og kennararnir gátu bara ekki hætt að tala um listræna hæfileika dóttur minnar :) enda er ég dugleg að geyma myndirnar af óla prik sem sjálfsagt eiga eftir að fara á einhverjar billur er fram líða stundir.
Jói er víst allur að koma til, hefur mikið dálæti á tungumálum og kann svo til öll helstu blótsyrði á ensku, og duglegur að æfa þau líka :/ þannig að það er allt í gúddí í þeirri deildinni, en mamman fékk samt áminningu fyrir að vera ekki nógu dugleg að láta þau lesa!

Sprauturnar eru að virka fínt, ég er nánast hætt að haltra og sef svo miklu betur, loksins!
Síðan er það árlegi hausverkurinn, hvað á að gefa börnunum í jólagjöf... ohh.... gef þeim bara símaskránna... þá fá þau nú heldur betur að lesa maður, hí hí... og kennarinn ánægður og alles :)

jæja, held að kjötbollurnar séu tilbúnar, og svo er framundan kellingakvöld á skjá einum :)
verið nú dugleg að kvitta hjá mér, það er svo gaman að sjá hverjir kíkja hér til mín.

Sunday, November 19, 2006

Rólegheit

Helgin var bara nokkuð góð, afslöppun og næs, ég hefði nú kannski alveg mátt þrífa eitthvað hérna samt, en ég er með pússluspil á borðinu hjá mér og gjörsamlega gleymi mér yfir þessum "tímaþjófi" eins og hún systir mín kallar þetta.
Börnin mín eru farin að hanga aðeins of mikið í tölvunni finnst mér orðið, og það endaði með því í dag að ég rak okkur öll í göngutúr og það var alveg yndislega hressandi að komast aðeins út í snjóinn :) við komum svo við hjá Tótu og Bjössa á leiðinni heim og spjölluðum aðeins yfir kaffibolla á meðan krakkarnir léku, síðan röltum við þrú heimáleið og það var bara orðið dimmt þó klukkan væri ekki nema rétt yfir fimm.

jæja komið gott í bili, farin að pússla meira og þrífa minna :D

Thursday, November 16, 2006

Snjórinn og gullmolinn





Hérna eru svo myndir af gullmolanum og svo snjónum, það er bara skafrenningur þessa dagana.
Já, ég flutti í þetta alveg ótilneydd, ehh... :/

ps: ég kannast ekkert við þetta lið inní bílnum... mín börn ulla aldrei...

Wednesday, November 15, 2006

Moka snjó moka snjó

Já, hérna snjóar og fýkur og það fýkur fyrir bílskúrshurðina svo að ég þarf að halda því góðu svo gullmolinn fái nú að lúlla inni :) En það er ótrúlega hressandi að klæða sig vel og skella sér úti í snjómokstur.

Hinir gullmolarnir mínir hafa það bara gott, þó sumir séu komnir hættulega nálægt gelgjunni, hún er farin að taka nokkrar góðar æfingar í viku og snýr þá uppá sig, segir nei eins oft og hún getur og ranghvolfir augunum með stæl. held ég hafi heyrt þetta kallað "pre-teen" eða eitthvað svoleiðis einhverntíman. En henni til málsbóta verð ég að segja að hún er alltaf að taka til í herberginu sínu, setur britney eða black eyed peas í botn og gólar með :) Já hún er efnileg hún dóttir mín!

Svo fórum við í afmæli í sveitina í gær, hún Freydís litla frænka mín er orðin fjögurra ára og varð ekkert sérstaklega ánægð með að ég kallaði hana "litlu frænku" hún er nebbla orðin STÓR núna og ekkert múður!!! Ég leiðrétti að sjálfsögðu þennan ægilega misskilning hið snarasta og held ég sé örugglega í náðinni á ný :) Svo gaman að finna hvað ég er nánari þessum litlu frændum og frænkum eftir að ég flutti, þau þekkja mig svo vel núna ég ég fæ alltaf knús þegar við hittumst.

Well....ég gleymdi að sjálfsögðu að taka mynd af glæsikerrunni en reyni að redda því fyrir næsta blogg.

Monday, November 13, 2006

Hellú!


Hér er vægast sagt klikkað veður. Héldum upp á afmælið hans Jóa í dag, buðum bekknum hans kl. 3 og fjölskyldunni kl. 5. Það mættu bara um helmingur af krökkunum og síðan voru þetta bara Þórunn systir og hennar fylgilið, mamma, Ragnar bróðir og náttla ég :) Við sjáum hvergi út, snjóað fyrir alla glugga og það brakar og brestur í öllu húsinu, þori ekki öðru en að láta Jóa sofa í gestaherberginu í nótt, það glymur alveg óhugnalega á hinni hliðinni á húsinu. Afmælisgestir mættu flestir í kraftgöllum og einhverjir meira að segja með skíðagleraugu.
Þetta var bara mjög góður dagur, hún litla systir mín tók nú bara mest allann bakstur í sínar hendur og fór létt með, og ég verð bara að láta fylgja með mynd af spiderman kökunni sem hún gaf honum Jóa, þetta er náttla bara listaverk!!

Nýji bíllinn okkar er æðislegur, við nebbla klesstum Toyotuna okkar :'(
Vorum svosem ekki á neinni ferð, lulluðum í umferðarhnút sem skyndilega stoppaði... en ég...ekki.. svo vorum við svo óheppin að bíllinn fyrir framan okkur var jeppi, þannig að við fórum bara undir hann og ég sá bara húddið koma á móti mér!! Í stuttu máli sagt, honum er ónýtur :( og við sjáum mikið á eftir þessum bíl sem hefur mátt þola mikið (þið sem vitið hvað ég keyri fallega..ehemm..)
En semsagt nýji bíllinn, er skoda oktavía árgerð 2005, gylltur og glæsilegur með sjálfskiptingu sms-bremsum...abc...lgg eða hvað þetta heitir. Hann tengdafaðir allra tengdafeðra stóð mér þétt við hlið í þessum bílamálum og er það mér alveg ómetanlegt, og hann Sigurpáll minn gerði allt fyrir mig sem hann gat, sá algerlega um dráttarbílinn og allt sem því fylgdi að koma bílnum á sinn stað, og allt þetta er fyrir þeim sjálfsagðir hlutir að gera fyrir fjölskylduna, það hjálpast bara allir að :)
þau sitja líka uppi með mig sem fjölskyldumeðlim um ókomin ár, og nokkur ár eftir það...

Ég fór í spítalaheimsókn á gigtardeildina síðustu helgi og fékk nýtt lyf sem ég get spautað mig með sjálf, þurfti aðeins að læra handtökin við að blanda og útbúa sprautuna en annars er þetta lítið mál, var svo hjá þeim klukkutíma eða svo til að tékka á viðbrögðum mínum við lyfinu. Það var allt í þessu fína með það og ég þarf því ekki að mæta alltaf í bæinn til að fá lyfin. Þetta nýja lyf heitir Enbrel en það er víst eitthvað sambærilegt remicade, það er lyfið sem ég var á áður en ég fékk einhver ófnæmisviðbrögð og þurfti að hætta á því.

Jæja þetta eru held ég nægar upplýsingar í bili. Ég ætla svo að setja mynd af bílnum í næsta blogg!

ble ble

Tuesday, September 12, 2006

Hún Freyja litla


Er bara alls ekkert lítil lengur. get ekki haldið á hundinum lengur og er hún nú ekki nema rétt tæplega fjögurra mánaða!! Var að reyna kenna henni að "sækja" áðan, það var eiginlega BARA fyndið!! En það tókst á endanum... þarf örugglega að kenna henni þetta daglega í einhvern tíma samt, þvílíkt gullfiskaminni sem þessir hvolpar hafa :)
Það hefur gengið á ýmsu síðan hún kom aftur. hér hafa flogið niður blómasúlur, málningadolla, nagaðir þröskuldar og svo notar hún hvert tækifæri til að stinga hreinlega af, og horfir svo á mig eins og ég sé geimvera þegar ég reyni að skamma hana. En eins og með börnin, þá fyrirgef ég henni allt þegar hún er sofnuð :D ha ha ha!

Sunday, September 03, 2006

seint koma sumir...

Vá, ég var gjörsamlega búin að gleyma notendanafninu og passwordinu og hefði pottþétt týnt nefinu ef það væri ekki njörvað fast á andlitið á mér !!

En semsagt skriðin aftur á bloggið eftir nokkur vel valin orð frá mínum nánustu :)

Sumarið hér í sveitinni er bara búið að vera yndislegt og ég er ekki alveg ennþá að fatta fólkið hér sem fer í sumarbústaði.... mér finnst ég eiginlega búa bara í einum slíkum :D ég er soddan borgarbarn ennþá að þetta er ennþá bara eins og sumarbústaðaland fyrir mér.

Börnin eru byrjuð í skólanum og enginn leikskóli lengur, þau eru orðin svo stór.... eða ég að minnka... tíhí... :)
það gengur bara mjög vel hjá þeim og við Sigurpáll búin að vera í nánu samstarfi við félagsfræðing og barnalækni varðandi spóalegginn okkar, en vegna þess hve ótrúlega vel gefnir og fallegir foreldrarnir eru höfum við ekki nokkrar áhyggjur af því að ekki rætist úr drengnum!! En erum engu að síður með alla arma úti og öflugt öryggisnet ef eitthvað kemur uppá, en það má víst alveg höndla þennan athyglisbrest með góðum aga og réttum uppeldisaðferðum.

Hann Jói minn er orðin svo vanur gigtveikri móður að hann kemur alltaf heim æpandi: HÆ MAMMA, ERTU LÚIN? hehe, það er svo sætt að ég get aldrei annað en brosað.
Þessi drengur er gangandi gullmoli :) hann lét til dæmis ömmu sína í Reykjvík vita það að hin amman hans væri ALLTAF að baka og ætti ALLTAF kökur!! ...nú nú!! sagði amman í Reykjavík þá.... á að láta mann heyra það!!
Af Sibbu sætu er það að frétta að hún saknar pabba síns soldið og virðist finna aðeins fyrir því að hann er langt í burtu. Ekki það að hún hitti hann ekki nóg, heldur kannski bara að vita af honum svona langt frá.

jæja, ég verð að passa að fara ekki yfir strikið í blogginu svona fyrst :)

Friday, June 23, 2006

What happens....

... if you get scared half to death twice..???

Tuesday, June 20, 2006

það helsta

Erum að pæla í því að fara á Akureyri á morgun, semsagt ég og mamma... allir hinir eru einhvernveginn á leiðinni úr landi eða bara alls ekki á landinu!!
Ég nebbla fékk Lindu systir til að kaupa rimlagardínur fyrir mig síðast þegar hún fór, og var svo upptekin af því að hún keypti rétta stærð að ég spáði ekkert í síddinni. Svo þegar hann Bjössi var búin að setja upp eitt stykki þá kemur í ljós að hún náði rétt rúmlega hálfan gluggann :) var reyndar pínu fyndið og alveg ekta Inga!!

Sibba sæta og Jói spói hafa varla tíma til að borða þessa dagana, ég næ þeim bara ekki inn, þarf meira að segja að fara rúntinn til að leita!!! ótrúlegt, börnin sem ég fékk varla til að fara út í Maríubakkanum. það er þvílíkt verið að bralla hér, þau eru hjólandi, í næstu götu á trampólíni, safna steinum í fjörunni, útá skólalóð, eða bara bankandi uppá hjá öllum ættingjum og sníkja nammi eða smá yl í kroppinn :D þetta er alveg yndislegt, þau eru svo frjáls.

Gigtarmálin eru í molum, og það er farið að verða ansi pirrandi... ég er nebbla komin með einhverja garð-bakteríu og held að margur fengi nú nett sjokk að sjá MIG með garðhanska og skóflu í hendi :) en mínir grænu fingur bara neita að virka :( en... mar á víst að vera jákvæður, svo ég hugga mig við það að ég get þó gengið, talað, heyrt og séð :D hí hí... já og eins og hún Þórunn systir sagði um daginn þegar hún var að reyna að fá mig á djammið.. "en...geturðu ekki alveg lyft bjór"?? ha ha ha :D hún er alveg snilld hún litla systir!!

Thursday, June 15, 2006

hmmm....

Politicians and diapers should both be changed regularly, and for the same reasons!!

Wednesday, June 14, 2006

Flutt ! ! ! !

hæ allir!
Þá eru flutningum lokið :) En ef þið hélduð að ég væri komin í einhverja afslöppun, þá er nú öðru nær!! Hef bara aldrei haft svona mikið að gera, þessi garður er nú í fyrsta lagi bara hlutastarf út af fyrir sig, og svo eru börnin í fríi. En þetta er yndislegra en ég hafði búist við, hér eru alltaf gestir og ég er umkringd ættingjum.. sem "by the way" eru gestirnir... hehe :)
Hún Þórunn systir gerði sér lítið fyrir og eyddi hér ca. 6 tímum á dag fyrstu vikuna í að mála fyrir mig, og hlustaði ekki á neinn þegar við reyndum að fá hana til að hvíla sig öðru hvoru, hvílík harka :)
Heiðmar frændi kom svo og setti saman alla ikea sjoppuna eins og hún lagði sig og tók niður og setti upp aftur allar hillurnar í geymslunni svo Tóta gæti málað! svo er mamma gamla búin að hjálpa til við að setja upp gardínur og elda og baka í liðið þegar á þurfti að halda og Jón Gunnar bróðir kom í gær og snyrti alla runnana hjá mér, og svo til að toppa þetta allt saman kom hann Bjössi áðan og setti upp helling af ljósum blöndunartækjum og fleira!!! Já skagstrendingar eru greinilega ekki þekktir á letinni :D

Ég er búin að fá mína fyrstu heimsókn að sunnan! Bjarney mín gat bara ekki beðið eftir að sjá mig og brunað bara norður. Við höfðum það alveg rosalega kósí við að spjalla, pússla, sötra baileys og fleira skemmtilegt :) Þórunn leyfði Jóa bara að gista svo við gætum verið í rólegheitum.

Nú skora ég bara á ykkur hina fyrir sunnan að kíkja í sveitina, alltaf kaffi á könnunni og sonna.
Og svo hef ég líka frábæra gistiaðstöðu!

Jæja þetta er ágætt í bili, ég er búin að vera svo á fleygiferð síðustu daga að ég hafði mig bara ekki í að blogga strax.

Takk til ykkar allra sem hjálpuðu mér fyrir sunnan að hlaða í bílinn, Róra mín, það minntist nú ein á það þarna í öllum látunum að þú værir nú á við hvaða karlmann þegar kemur að því að bera þunga hluti :) he he, kjarnakona ertu!!

Tuesday, May 09, 2006

viðburðaríkir dagar

það er bara gestagangur þessa dagana. Jón Gunnar bróðir og Guðrún voru hjá okkur um helgina, svo í gær kom Linda systir með Andreu með sér og þær gistu í nótt. Andrea þurfti nebbla að fara til tannréttinga læknis. Veðrið er búið að vera algjör draumur og við sátum bara ég og nágrannakona mín úti í allan gærdag og kjöftuðum á meðan börnin hennar 3 og mín 2 léku sér í sólinni :) Ég hef ekki fengið svona mikið súrefni í einum skammti síðan á síðustu öld!!

Hún Sigurbjörg er heima í dag með gubbupest greyið, svo við reynum að láta fara vel um okkur og horfum á niðurhalað efni úr tölvunni ;)
hún er að hressast aðeins og var svo svöng þegar pabbi hennar hringdi til að heyra í henni að hún fékk hann til að koma með "special delivery" handa okkur af boost barnum í Laugum :D

Næstu helgi verð ég svo barnlaus og þá er planað að rusla sem mestu ofaní kassa og sletta einhverjum tuskum á pleisið. Við flytjum 27.maí, svo lengi sem flutningabílstjórinn samþykkir það. Svo ef þið lumið á hraustum eiginmönnum, þá er öll aðstoð vel þegin :)
Hann Sigurpáll og Gísli bróðir hans ætla að koma, og svo hjálpar bílstjórinn minn líka, en ég hefði viljað að þetta tæki eins stuttan tíma og mögulegt er því ég er að fá hann Stulla til að flytja þetta fyrir mig og hann ætlar ekki taka neitt fyrir það sjálfur, svo ég vil helst ekki taka af honum alla helgina í þetta!

Og nú er maður komin í átak. það er víst of seint að komast í kjólinn fyrir jólin.... í staðin ætla ég bara að skreppa saman því það er svo gaman :D

Wednesday, May 03, 2006

Greyið Inga

Hér er allt á hvolfi, og ég er einhvernveginn á hvolfi bara líka... veit ekki í hvorn fótinn á að stíga, hvar ég byrja eða hvar ég enda :(
Kannski er ég bara komin með einhvern flutningskvíða því ég finn óöryggið hellast yfir mig og mér finnst ég eitthvað voðalega alein í heiminum... vonleysið nær tökum á manni stundum... alveg þangað til börnin koma heim úr skólanum æpandi glöð og kát og heimta athygli :) hvar væri ég án þeirra??
Greinilega einn af þessum "aumingja ég" dögum.

Og hvað gerum við þá??
Jú, við förum út í búð og kaupum okkur súkkulaði!!!

Thursday, April 27, 2006

Froskur í álögum

Hann Jói útskrifaðist úr leikskólanum í dag með sóma :)
Ég, Sigurbjörg, Sigurpáll og Auður amma fengum sæti á fremsta bekk og sáum skemmtilega uppsett leikrit þar sem Jói lék frosk í álögum!! Froskurinn var svona með þeim fjörugri sem ég hef séð og ætlaði aldrei að sleppa prinsessunni þegar hún kyssti hann.. hahaha :D snemma beygist krókurinn ;)
Krakkarnir fengu síðan rós og viðurkenningaskjal, og svo fengum við öll köku og kaffi.

Wednesday, April 26, 2006

Sagan um mömmu

Hún dóttir mín skrifaði sögu um mömmu sína í dag, og ég eiginlega verð að setja hana hérna. það er ekki hjá því komist að maður fari nú aðeins endurskoða daglegt líf....ehemm..... :/
(ég skrifa þetta hérna eins og það kemur beint frá litla rithöfundinum)

MÖMMU!

HÚN MAMMA ER AÐ HANGA Í TÖLVUNI
HÚN ER AÐ BORÐA VIÐ TÖLVUNA
HÚN ER AÐ DREKA KÓK VIÐ TÖLVUNA OG SVO VAR MAMMA AÐ ROPA OG SEGIR EKKI AFSAKIÐ
HÚN MAMMA GLEIMIR AÐ TAKA TIL INNI HJÁ HENNI
HÚN GLEIMIR AÐ BÚA UMM RÚMIÐ SITT
ÐEGAR HÚN FER ÚT GLEIMIR HÚN AÐ SIDA HÚFUNA SÍNA

ENDIR

Monday, April 24, 2006

aahhhhh....

Einhver værð yfir mér í dag :) er furðu róleg miðað við aldur og fyrri störf!! Njótum þess á meðan það varir... hehe :)

Sólin skín, Sigurbjörg og vinkona hennar eru í dúkkuleik inní herbergi og koma reglulega fram til að sýna mér litlu börnin sín og ég hlusta á múskík á meðan í pikka inn nýjustu fréttir.
Þarf að fara í pappakassaleit á eftir, búin að fylla þessa sem ég átti. Bara mánuður í að ég komist í faðm fjölskyldunnar :) hí hí, það mætti halda að ég væri á einhverjum gleðipillum í dag :)

Annars horfði ég á kompás í gær og fékk létt sjokk. þar var fyrrum vinkona mín að rembast við að sprauta sig með morfínefni einhverju og það ætlaði aldrei að ganga hjá henni greyinu :'(
mikið var erfitt að horfa á hana svona illa haldna og langt leidda. Við vorum mjög nánar vinkonur þegar hún missti litla bróður sinn í slysi uppá jökli fyrir um 20 árum síðan og ég held að það hafi haft mikið að segja um framhaldið hjá henni.

Hún Bjarney ætlar að kíkja í heimsókn í kvöld og prjóna með mér aðeins, við höfum það alltaf svo gott þegar við hittumst. Fæ hana til að horfa með mér á survivor og svona ;)

Sunday, April 23, 2006

Sunnudagur framundan

Hvað skal gera?? Langar mest til að setja tærnar upp í loft og prjóna í allan dag, en ég kemst alveg örugglega ekki upp með það :)
var svo búin á því í gærkvöldi að ég var sofnuð um kl.10

Krakkarnir eru að deyja úr spenningi, pabbi þeirra er að koma heim frá köben í dag og lofaði að koma með pakka handa þeim. kannski tekur hann þau í smástund til sín, ég er eitthvað voðalega þreytt.

það er orðið pínu problem að pakka niður, get eiginlega ekki pakkað miklu meira í bili, ekki nenni ég að búa í tómri íbúð í heilan mánuð og einhvern veginn þarf maður allt þetta drasl í kringum sig :) hehe..
ég gæti nú örugglega byrjað á að þrífa eitthvað... ef ég bara nennti því...hmmm... voðalega er ég jákvæð í dag :D ha ha ha!!!

Thursday, April 20, 2006

Gleðilegt sumar

Jæja þá, við erum orðin eins og jójó á milli Skagastrandar og Reykjavíkur :)
Erum eins og er sunnanmegin á landinu, þar sem sumarið er!!!
Ég fékk þetta yndislega frí í dag þegar amman hringdi og bað um að fá börnin í skrúðgöngu og fleira, þau voru að koma heim rétt í þessu, skemmtu sér rosa vel að horfa á fimleika sýningu og lúðrasveit og skáta eitthvað og solleis :) og eru núna bæði í baðkarinu að vökva gólfið!! Nenni ekki að æsa mig yfir því í dag.

Horfði á frábæra mynd í dag með honum Will Smith, hún heitir "Hitch" og ég hló mikið, gef þessari mynd einkunina "góð skemmtun".

Ég talaði við Kristian minn í dag, hann er kominn heill á húfi til Noregs og hefur það gott, held hann sé eitthvað að svipast um eftir vinnu þessa dagana, það ætti ekki að vera problem fyrir þann gáfumann :)

þá hef ég talið upp svona það allra helsta held ég. Er alveg svakalega dugleg að prjóna og það sama má segja um konurnar mínar fyrir norðan, allar með nítró í fingrum audda.
Svo er ég búin að eyða svo miklum peningum upp á síðkastið að ég býst við símtali frá seðlabankastjóra any day now... HALDA AÐ SÉR HÖNDUM Í EYÐSLU... heyrði ég í fréttunum einhverntíma nýlega... hí hí hí :D
búin að kaupa ísskáp, eldhúsborð og stóla, rúm handa krökkunum og margt margt fleira.

jæja öskrin og lætin að aukast frá baðherberginu... time for a lecture i guess..

Saturday, April 15, 2006

Páskafrí á Skagaströnd

Erum á ströndinni í rosa fjöri með fjölskyldunni, eitthvað hefur nú verið um veikindi hérna samt, Þórunn og strákarnir voru öll veik þegar við komum á þriðjudaginn en eru nú öll að hressast :)
Krakkarnir hafa skemmt sér mjög vel saman og Sigurbjörg fékk að gista í sveitinni eina nótt!

Erum núna að gera okkur reddí fyrir smá verslunarferð á Blönduós, ætla að kaupa mér garn í nýtt verkefni þar sem ég kláraði bleiku dúllu peysuna í gær, hún er BARA æðisleg :)
Ætlum síðan að fara í hádegismat á Steinnýjastaði og fá pizzu og leyfa krökkunum að leika.
Hún Sigurbjörg fékk að fara á skíði með Andreu og hún er ekki lítið spennt yfir því að kunna á skíði :) held hún ætli eitthvað að dobbla pabba sinn fyrir næsta vetur, hann er víst yfir íþróttadeildinni hjá börnunum sínum og stendur sig vel í að hvetja þau til að hreyfa sig og stunda íþróttir!!

jæja, við erum víst öll að verða tilbúin, það snjóar og snjóar svo við verðum að keyra varlega.

lofa að skrifa meira mjög fljótt, svo... stay tuned ;)

Tuesday, March 28, 2006

Ja hérna..

Er að stíga uppúr gubbupest, held ég gæti frekar hugsað mér að fæða barn en þetta ógeð :(
en þetta er allt að koma, mér líður mun betur og reyni nú að koma niður einhverri næringu.

Dröslaðist samt einhvernveginn niður á fasteignasölu í morgun og skrifaði undir kaupsamning, harkaði bara af mér til að klára þetta. Svo þá er allt þetta fasteignavesen á enda og ég get einbeitt mér að því að flytja :)

Hef síðustu daga aðeins verið að kíkja í húsgagnaverslanir, þarf að kaupa eldhúsborð og stóla, og síðan rúm og svona eitthvað sætt fyrir krakkana. Sá æðsilegt rúm, náttborð og skrifborð handa Sigurbjörgu í Línunni, rúmið kostar bara 15.000 og hitt er ekki dýrt heldur. það er svo gaman að þessu að ég verð hreinlega að passa mig að gleyma mér ekki í eyðslunni!!

Keypti mér pússluspil í morgun, Bjarney, þú ert velkomin í pússlupartý ;) bara ógó gaman að pússla skilurru.... alltaf svo mikið action í kringum mig.. hahaha :D

Svo þarf ég að fara í málningaleiðangur og kaupa allt það drasl... Þórunn.... hvenær kemurðu???

Thursday, March 23, 2006

Elías!!! Elías!!! Hjálp... Vírus!!!

Helv... djö... hvernig kemst þessi fjandi í tölvuna hjá manni?? Getur það kannski komið inn um Dc++? myndi skilja þetta ef ég væri að skoða Bibbana á Bibbasíðunum ;)

Gerðist heví dulleg og þreif, ryksugaði og skúraði allt saman þegar krakkarnir voru farin í skólann, svo nú vantar bara Tótu til að toppa þetta og baka nokkrar kökur með kaffinu :D
komin með leið á samsölu bakstrinum :/

Verð aðeins að slaka á í að pakka niður, það fer að bergmála hérna ef ég hægi ekki á mér, það eru víst ennþá tveir mánuðir í þetta.

Átti mjög skondið samtal við dóttur mína í gærmorgun þar sem hún þurfti að vera heima með hita. það stoppaði hana nú samt ekki í að vakna kl. 8.
En ég átti nú ekki alveg svo auðvelt með að vakna og var alltaf að dotta í sófanum og náði ekki alltaf að fylgja eftir samræðunum, og þetta hljómaði eitthvað líkt þessu í ca. klukkutíma:

Sigurbjörg: (spurning sem ég greinilega missti af)

mamman: zzzzzzzzzzzzzzz

Sigurbjörg: MAMMA!! ætlarðu ekki að vakna??

mamman: New Orleans...zzzzzz

Sigurbjörg: Ha??

mamman: Ha??

Sigurbjörg: mamma, ég skil þig ekki þegar þú bullar svona

mamman: nú? var ég að bulla eitthvað?

Sigurbjörg: já, þú svarar alltaf eitthvað sem þú bullar bara!!

mamman: já, nú verð ég að fara að vakna..... zzzzz.......

hahaha :D mér fannst þetta pínu fyndið, og ég var meira að segja að vakna við mínar eigin hrotur!!!

Gott dæmi um það hvað það getur nú verið gott að lesa blogg ættingjana! Ég stökk uppúr stólnum þegar ég las á blogginu hennar Róru frænku að ég ætti að vera búin að skila skattaskýrslunni!!! Takk fyrir sjokkið Róra mín :/ ég sendi auðvitað e-mail á skattakelluna mína hið snarasta og hún ætlar að redda málinu.

..dekkið í skottinu er ennþá sprungt....

Tuesday, March 21, 2006

hvert fór vorið??

Alveg er þetta merkilegt, ég kaupi hjól handa dömunni og þá fer að snjóa
svona er þetta, hún er reyndar orðin lasin greyið svo hún færi nú ekki mikið út að hjóla hvort eð er.

Takk fyrir hughreystingarorð elskurnar mínar, vonandi fer þetta að lagast. ég er enn verri í dag reyndar og farin að gruna að ég sé bara eitthvað lasin líka, beinverkir að ruglast saman við gigtina. Leigði bara spólu fyrir krakkana og keypti handa þeim mini páskaegg, þannig að ég fæ alveg ágætis frið.

Ég seldi eldhúsborðið mitt og stólana í dag, borð sem ég hef átt frá því sigurbjörg fæddist, það er pínu söknuður þar, margar matarslettu og niðurhellis minningar
fékk 15.000 fyrir það, sem ég held að sé bara ágætt.
Svo að nú er til einn stóll á heimilinu og það er tripp trapp stóllinn.... hehe!
Ég kaupi nýtt borð þegar við flytjum, við borðum hvort eð er yfirleitt í stofunni.

Monday, March 20, 2006

ææ og óó

Hef einhvern veginn puðast áfram síðustu daga, gigtin að pirra mig mikið og það gengur hratt á verkjatöflu lagerinn... fer í sprautuna mína á fimmtudaginn og vona að það létti á mér aðeins :)
orðið frekar glatað þegar ég þarf að nota BÁÐAR hendur til að opna eldhússkápana mína :/

Fór í dag með Sigurbjörgu í hjólabúð í dag og við keyptum nýtt hjól :) hún er svo glöð litla skottið, og svo montin með að vera komin á stærra hjól! held þetta sé 20" rautt og með körfu framaná, voða sætt.

farin að hlakka svo til að komast í rólegheitin í sveitina hjá fjölskyldunni !
wellwell, ekki svo mikið að gerast hér þessa dagana, ætla að kúra í sófanum í kvöld og horfa á survivor og csi.

jæja ég ætla að knúsa krílin mín aðeins á meðan þau horfa á BÚ :) þau tvö eru á við margar verkjatöflur og eru alveg yndislega góð við mig þegar þau sjá að ég er lasin.

babæ

Tuesday, March 14, 2006

Hot chic of the north!!

jæja, ég kemst víst ekki upp með þessa skrifpínu mikið lengur... best að semja einn góðan reyfara áður en einhver kemur og lemur mig í hausinn ;)

Fór norður um helgina sem var í meira lagi viðburðarrík og skemmtileg!! skrifaði undir kaupsamning á föstudeginum og varð staurblankari en vanalega á örskammri stundu, vel þess virði þó :D því nú á ég HÚS!!!!!
Þaðan fórum við heila 100 metra yfir á hárgreiðslustofuna þar sem ein snaróð kella tók hausinn á mér í bakaríið og ég fríkkaði heilan helling :) og var ég þó falleg fyrir... skilurru! Ég gerði mér svo lítið fyrir og seldi íbúðina mína á meðan ég sat í stólnum!
Svo fórum við í skafffirringabúð og ég verslaði mér íþróttabuxur og bol.

Laugardagurinn var ekki síðri, þar sem planað var að fara á konukvöld á hótelinu á kántrýströnd og believe me, ég fékk ekki miklu ráðið um það hvort ég færi eða ekki. Hún Tóta Túrbó sá um allt. Get ekki sagt að mér hafi litist á blikuna þegar hún sagði mér að strippa og lyfta upp höndunum!! hún nebbla fór að spreyja á mig einhversskonar tjörulíki og sagði þetta vera "brúnkusprey" eníveis, hvað sem það var þá virkaði það fínt. síðan strolluðum við kvenleggur fjölskyldunar á hótelið og skemmtum okkur þrusuvel :D Fengum meðal annars að sjá tískusýningu sýnda hratt... man varla hvort þær voru yfir höfuð í fötum...

ég er semsagt komin í bakkann aftur og búin að pakka niður í 3 kassa :)

vona að henni vinkonu minni í vogunum fari að batna, ég sakna hennar svo mikið!!
knús til þín Bjarney mín :) verðum að hittast fljótt!

Friday, March 10, 2006

Farin norður og niður!!


legg af stað snemma í fyrramálið, á eiginlega að vera sofnuð núna.
Ætla að kaupa hús á morgun og djamma á laugardaginn :D jibbí!!!
komin tími á mig að skemmta mér aðeins og halda upp á húsakaupin í leiðinni!!

later!

Wednesday, March 08, 2006

Hækkandi sól

Jæja, það fer að verða spursmál hvernig maður kemur undan vetri! Ég hef uppgötvað það að fötin mín hafa öll minnkað umtalsvert og speglarnir líka reyndar.... ég hef kannski þrifið aðeins of vel... hmmm....ha......það er bara blíðan.... :->

Það er nú komin pínu vorhugur í mig, hlakka mikið til að fara að pakka aðeins niður og taka til í skápum og solleis, fyrir norðan bíður fjölskyldan mín spennt eftir mér, og allir tilbúnir að hjálpa mér! Elsku Bjössi, ég skal reyna að misnota ekki góðmennskuna of mikið :) en ég er mikið heppin að eiga þig að!!!
Bíllinn minn hinsvegar er alveg að sitja á hakanum. Ég þyrfti nú að láta gera við þetta blessaða varadekk fyrir næstu ferð norður, er að bíða eftir að hún hringi fasteignasalinn á króknum og boði okkur á fund til að skrifa undir kaupsamning :)

Hún Sigurbjörg mín er farin að biðja um hjól fyrir sumarið, gamla hjólið er búið að vera tómt vesen síðan við keyptum það. En það er ekki gert ráð fyrir svona málum hjá öryrkjum, endar ná ekki mjög vel saman þessa dagana og það er eitthvað sem ég er ekki vön. :'(

Jæja búin að væla aðeins fyrir vikuna.
En ég er orðin svo gleymin að ég er farin að halda að það vanti í mig eitthvað vítamín eða eitthvað!! Það er eitthvað í sjónvarpinu á fimmtudagskvöldið sem ég verð að sjá, en ég get ekki með nokkru móti munað hvað það er... hehe :)

Ég leyfði krökkunum að horfa á "fear factor" með mér í gærkveldi, poppað og breiddi yfir okkur sæng í sófanum, voða kósí. Þegar kom að því að keppendur þurftu að éta pöddur og úldin fisk þá földum við sigurbjörg okkur á bakvið sitthvora fjarstýringuna á meðan Jói huggaði okkur og sagði: þetta er allt í lagi mamma, þetta er ekkert mál!!! En ég hefði gefið mikið fyrir að hafa haft myndavél akkúrat þá, svipurinn á drengnum lýsti vel því sem var að gerast á skjánum :D ha ha ha!!! þau eru á skemmtilegum aldri og farin að vera meiri félagar fyrir mömmu sína, gaman að geta horft saman á skemmtilega þætti og spila og svona, og þegar við flytjum í sveitina er planið að fara reglulega í hjólreiðatúra.

En núna verð ég að standa upp og veiða þau uppúr baðinu.

Tuesday, March 07, 2006

Draumur


Ja... eða martröð öllu heldur!!!
Lagði mig aðeins í morgun og dreymdi að hún Sigurbjörg mín væri byrjuð að reykja!!!
Ó MÆ GOD, ég var BRJÁLUÐ!! Nema það að það hlustaði enginn á mig. Hún Auður frænka hennar var orðin ca. 14 ára og var að fikta við þetta og Sigurbjörgu fannst þetta ótrúlega flott og var að stelast líka. ég talaði við pabba hennar og mömmu og þeim fannst þetta nú bara eðlileg þróun hjá stelpunni. og Sigurpáll bara rólegur yfir þessu! og til að toppa allt saman að þegar ég reyndi að tala þá drafaði ég eða að kom svona í "slow motion" og skildist ekki, ég hef sjálfsagt verið að tala upp úr svefni þá. Rétt upp hend sem hefði viljað vera fluga á vegg!!! he he :)
Ég var svo fegin þegar Linda systir hringdi og vakti mig, veit ekki hvar þetta hefði endað eiginlega.

Monday, March 06, 2006

þrata og þræsa!!

ha ha ha :D !!! Fannst það BARA fyndið í morgun þegar Helga vinkona missti tunguna á sér í hnút og ruglaði þessum orðum svona skemmtilega saman. Hún var semsagt að þrasa og þræta við manninn sinn um uppröðun á húsgögnum í nýja húsinu þeirra :)

Ég var með opið hús um helgina til að sýna íbúðina mína og það kom alveg einn heill kall að skoða!!!! mér leiddist svo biðin eftir fólkinu að ég prjónaði eina húfu og vettlinga í stíl :/

Svo fann ég nokkuð vel fyrir jarðskjálftanum í dag, brá pínulítið þar sem ég lá upp í sófa í rólegheitum. þegar ég reyndi svo að útskýra fyrir Jóa hvað jarðskjálfti er fór hann bara að hlæja og sagði að ég væri bara að grínast!! Honum fannst það alger fásinna að húsið okkar gæti tekið upp á því að hristast :D hehe!

Svona í lokin þá verð ég bara að biðja ykkur að fara inn á kvikmynd.is og horfa á atriði sem heitir "allt getur gerst í sjónvarpi" Ég hló svo mikið að það runnu tár!

smá fróðleiksmoli: daginn sem ég kom í heiminn, var bítlalagið "let it be" á toppnum!

Thursday, March 02, 2006

klukk!

Hún Bella vinkona "klukkaði mig" þetta er svona leikur þar sem maður telur upp fjögur atriði um sjálfan sig í nokkrum flokkum. Ég ætla að reyna þetta hér og láta það svo ganga áfram.


Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Vestmannaeyjar
Raufarhöfn
Kópavogur
Reykjavík
Fjórar eftirminnilegar bækur:
Ég lifi (Martin Grey)
Korku saga (Vilborg Davíðsd)
Minningar Geishu (man ekki)
dagbók Önnu Frank
Fjórar góðar bíómyndir:
Annie
Blow
Schindler's list
the pianist
Fjórir uppáhalds sjónvarpsþættir:
Friends
Staupasteinn
CSI
Friends :D
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Bendidorm
Seattle USA
Noregur
Kaupmannahöfn
Fjórir uppáhalds veitingastaðir:
Holtið
Rauðará
Ruby tuesday
Asía
Fernt matarkyns í uppáhaldi:
kjötbollur a la mamma
hrísgrjónarétturinn hennar Þórunnar systur
jóladags hangikjötið
grjónagrautur

ég skora á:

Bjarney og Róru að koma með næsta klukk :)
standið ykkur svo!! hehe!

Monday, February 27, 2006

Loksins loksins!!


Það kom loks einhver að skoða íbúðina, ungt par með ungan son. Þeim leist held ég bara vel á og síðar kom í ljós að maðurinn er sonur hjónana á efri hæðinni.
Ég þreif svo vel hérna að börnin mín þorðu varla að hreyfa sig :)

Er aðeins að æfa mig að setja inn myndir á bloggið, vona að þessi skili sér. þetta er semsagt nýja húsið mitt í sveitinni!!

Var mestan part dagsins í keflavík hjá Helgu vinkonu, hún er dagmamma og það var gjörsamlega barn í hverju horni, öll á svipuðum aldri að lemja hvort annað í hausinn með dóti :) algjör krútt!

Það kom til mín kona í gær sem ég vann fyrir nokkuð lengi, og gaf honum Jóa mínum tvo fulla poka af fötum. Svo flott og heilt allt saman, og Jói fór í leikskólann í morgun í einni peysunni sem er appelsínugul með kóngulóm framaná, alveg yfir sig hrifin og kallar þetta að sjálfsögðu spiderman peysu. :D

ÁSTARÞAKKIR ELSKU SÆUNN!!

Held ég fari bara í keflavík aftur á morgun, hún Helga er svo skemmtileg!

Saturday, February 25, 2006

mætt aftur!

kominn tími á blogg heyri ég :)
Síðasta vika var ekki mjög góð gigtarvika svo ég var frekar löt við flest. En held þetta sé bara að koma.
Lítið gerst í vikunni, ég dreif mig í greiðslumatið og sótti um íbúðalánið, það gekk allt mjög vel og allt systemið í kringum það verið einfaldað heilan helling.

HLAKKA SVOOOOOOOOO TIL AÐ FLYTJA!!!!!!!!!!!!

Fór með krakkana í dýrabúðina áðan, vorum þar bara nokkuð lengi, skoðuðum kanínurnar, fuglana og fiskana og enduðum á að kaupa einn svartan gullfisk með útstæð augu :)
hann hlaut nafnið Töffari!!! En mikið rosalega langaði mig í fugl líka.. ég er að verða eitthvað dýrasjúk á efri árum, klappaði ca. 4 hundum sem komu þarna inn og lyktin í dýrabúðinni sem alltaf hefur farið í mínar fínustu, angraði mig bara ekki neitt!!! Held ég bíði samt aðeins með að fara í fjósið Linda mín... he he.. :/

Er að hugsa um að búa til pizzu í kvöld, hún Róra frænka bakaði eina svona rosa vel heppnaða í gær og smitaði mig alveg :D

Saturday, February 18, 2006

Laugardagurinn

Ég og Sigurpáll fórum með krakkana í dag á skauta í skautahöllinni!! Mikið rosalega er þetta gaman, og krakkarnir skemmtu sér alveg sérstaklega vel og voru bara að ná þessu nokkuð vel. Jói ekkert smá hugrakkur, rauk bara af stað með lappirnar langt á undan sér, ha ha ha :D hann er svo mikil perla og svo mikið krútt á skautum!! Hún Sigurbjörg fór mjög kerfisbundið í þetta, æfði sig samviskusamlega og þegar hún var tilbúin þá sleppti hún hjálparstönginni og renndi sér varlega, hún hefur alltaf verið mjög varkár í öllu sem hún gerir. En við Sigurpáll vorum eins og tvær "sveljur á belli" :D þetta er semsagt alls ekki eins auðvelt og það lítur út í sjónvarpinu!

Notaði restina af deginum í að taka til, þrífa, prjóna og hafa það gott :)
Ætla svo að tala við fasteignadúdinn á mánudaginn og drífa mig í greiðslumat og svona.

Thursday, February 16, 2006

Same old...

Já, frekar lítið að gerast þessa viku, nokkuð sátt við það fyrir utan íbúðamálin.
mjög dugleg að prjóna, en svo bara að hugsa um börn og bú. Býst við að hafa opið hús um helgina og laða að kaupendur sem virðast vera steinsofandi.

Krakkarnir eru orðin leið á vetrinum og langar að fara að hjóla og leika úti meira. Sigurbjörg er ekki að finna sig í þessum skóla, eða allavega ekki eins og ég átti von á. vona að skólinn á skagó sé góður, þar eru líka færri krakkar.

Góni svo reyndar hálfan daginn á ólympíuleikana, elska skautana.

jæja.. aftur að prjóna.. held að íbúðavesenið sé eikkað að draga mig niður... nenniði að toga mig upp?

Monday, February 13, 2006

Hey man!!

Latibær tröllríður mínu heimili um þessar mundir, orkubækur og límmiðar út um allt, latabæjar vettlingar, skór og buff (þið vitið, oná hausinn) allsstaðar. Get ekki beðið eftir að þessir límmiðar klárist. Hann sonur minn náði að troða 4 vítamínstöflum (latabæjarvítamín audda) í munninn áður en ég náði til hans, hann ætlaði nebbla að fá FJÓRA límmiða í vítamíns reitinn!!! ha ha, hann er svo mikill gullmoli stundum. Ég sagði honum um daginn að vera ekki að koma við bílinn vegna þess að hann væri "grút" skítugur, hann spyr strax hvað "grút" þýði..... ó mæ...öh... hmmm.....hérna....inn í bíl með þig :/ hvað er GRÚTUR???

Er aðeins farin að örvænta með að "ganga út". Á fertugsaldri og ógift!!! hvað er málið?
Samkvæmt stjörnuspekingum er minn draumamaður í ljóns eða jafnvel bogmannsmerkinu. Bið ykkur vinsamlega að hafa augun opin eftir þessum eðalmönnum og draga þá til mín á hárinu, með hringinn í vasanum!!

Já eitt í viðbót!!! hvar fær maður svona "hundaþolstöflur"?
mig langar svo í hund, en ég bara þoli þá ekki..... jess jess, margt er skrýtið í mínum haus...

Friday, February 10, 2006

Rugludallur er ég..

Haldiði að ég hafi ekki bara hent bíllyklunum mínum niður um ruslalúguna?!?!?!?! dísus kræst, þrufti svo að hringja bjöllunni hjá nágranna konunni og biðja hana að lána mér húslykla svo ég kæmist inn í ruslageymslu að grafa í tunnunum... svo hrundu hjá mér tvö blóm, annað þeirra meira að segja kaktus!! Og svona til að bæta gráu oná svart þá dóu BÁÐIR gullfiskarnir okkar. Sturtaði greyjunum í klósettið og sagði krökkunum að ég hefði þurft að skila þeim í dýrabúðina vegna þess að þeir væru veikir. Semsagt, einn af þessum dögum.. :/
Enginn hringt til að fá að skoða pleisið, frekar fúlt, en ég þarf þá ekki að taka til á meðan, hehe :)

börnin að borða ís og horfa á Latabæ, og mamman að borða nammi og bíða eftir Idolinu, það alveg toppar kvöldið ef einhver hrynur á bossann á sviðinu!!! hí hí, já ég er kvikindi.

góðahelgihelgi

Wednesday, February 08, 2006

nú liggur vel á mér!!

Íbúðin mín er komin á sölu og ég smyr á hana 16,9m !! hægt er að sjá myndir á fasteignavefnum á mbl. vona svo að þetta gangi bara fljótt og vel, mér er ekkert sérstaklega vel við svona pappírsvesen.
svo er bara sól og sumar í sveitinni framundan og allir fyrir norðan tilbúnir að hjálpa mér við að koma mér fyrir :) gott að eiga góða að.
Er svo að spá í þennan danska kúr, Tótu litlu gengur svo vel að það er varla hægt að tala við hana í síma lengur nema hún sé með fullan munn af gúrkum og paprikum.
Heilsan er svona í betra lagi þessa dagana, kannski hlýindin hafi eitthvað með það að gera... en, er á meðan er :)

Tuesday, February 07, 2006

ég þoli ekki...

...fólk sem heldur að það viti allt... (ég ekki meðtalin)

...nágranna sem þurfa að pissa BEINT ofaní vatnið í klósettskálinni kl. 2 á nóttunni..

...nágranna sem hafa aldrei heyrt um wd-40 og geta ekki drullast til að smyrja hurðarnar sínar...

...og enn og aftur þessa blessuðu nágranna sem elska hvort annað alltof hátt...

...að skafa frostið af bílrúðunni, það frýs alltaf extra fast á mínum bíl...

...að versla í ikea, þeir eiga yfirleitt bara eitthvað sem enginn vill, hitt er búið en "væntanlegt"...

...bremsuför í klósettinu mínu!!! klósettburstarnir eru ekki bara fyrir okkur sem eiga þá...

... HROSSAFLUGUR... krípí krípí...

...bómul...who does..?...

...fegurðardrottningar í fréttatímum eða spjallþáttum...

...pólitík...minn skilur ekki....


...?...en þú...?..

Monday, February 06, 2006

Harðlífi eða skita..

fólk er vítt og breitt að leggjast í "fuglaflensutilfelli" eins og góður fellow bloggari orðaði það.
vill óska öllum þeim, góðs bata og biðja í leiðinni að halda sig í góðri fjarlægð frá Maríubakka á meðan þetta illgresi gengur yfir. Jú ég á víst bara í nokkuð stórum vandræðum sjálf eins og er, virðist hafa þrifið yfir mig í dag, og haltra hér um og kveinka börnunum mínum til mikillar skemmtunar!

overandout

mánudagur

Þá er þetta farið að rúlla, fasteignasalinn kom áðan og dásamaði íbúðina mína í bak og fyrir :)
ég var náttla búin að þrífa og pússa út fyrir allt norm!! Ég heyri svo í honum í fyrramálið og þá ákveðum við verðið og auglýsum höllina! Hann Jói minn kom svo heim úr leikskólanum og spurði mig af hverju allt væri svona fínt.. eh.. ég hef kannski verið pínu kærulaus síðustu vikur.
Litla systir byrjuð á danska kúrnum, en hún er svo grönn að hún nær nú varla að byrja áður en hún þarf að hætta aftur.. hí hí :) ég þarf nú eitthvað róttækara en danskan kúr held ég... þarf örugglega að fara langleiðina til asíu.
Krakkarnir voru að fá þessa altöluðu orkubók í pósti, ég er ekkert yfir mig hrifin af þessu uppátæki, finnst þetta bara annað orð yfir fyrsta megrunarkúr barnanna. Börnin borða það sem á borð er sett, sérstaklega á þessum aldri, 5,6 og 7 ára, það er okkar foreldrana að venja þau á hollan mat. þau semsagt læra það sem fyrir þeim er haft!! amen!

Saturday, February 04, 2006

Nýja húsið mitt

Jæja, það hefur mikið gerst á stuttum tíma. Gerði tilboð í hús á Skagaströnd, sem þau tóku, svo ég stökk upp í bíl og brunaði af stað.. með sprungið varadekk í skottinu.. alveg mér líkt og móðir mín yfir sig hneyksluð á kæruleysinu sem ég erfði sko EKKI frá henni :D ha ha ha!!
Húsið er 122fm og bílskúrinn er tvöfaldur og er 60fm, stór garður með flaggstöng og alles og malbikuð innkeyrsla. Algjör draumur semsagt!
Fæ svo afhent í enda maí, svo ég hef nógan tíma til að græja málin, selja íbúðina mína og leyfa krökkunum að klára skólann.
Hann Sigurpáll minn reyndar mjög sorgmæddur, það eina leiðinlega í þessu máli, en við gerum okkar allra besta og ég trúi því að þetta verði bara allt í góðu. kannski við gefum pabbanum bara web cam eða hvað það heitir, svo hann geti séð þau og heyrt þegar hann vill.
bestu kveðjur frá öllum á kántrýströnd.

Thursday, February 02, 2006

eitt og annað

Er að horfa á leikinn með öðru og blogga með hinu, hæfileikarík kona :)
Sýnist íslendingar ætla að missa allt niður um sig eins og þeim er einum lagið á síðustu mínútunum.. og það gegn norge!!! ekki gott..
Engar fréttir af húsnæðismálum ennþá, reyni að bíða róleg og anda djúpt.
Undur og stórmerki gerðust í dag, ég fór út og hreinsaði draslið úr bílnum og henti mottunum í bað!! Veit bara ekki hvað kom yfir mig.. kannski ég hafi bara fengið upp í háls af þessari megnu myglu lykt úr einni skyrdollunni sem rann út um mitt síðasta ár.
Dóttir mín er að glápa á leikinn með mér, í eitt skiptið sem dæmt var víti, kallaði hún til mín: "hey mamma!! þeir fá allir weetos"!!!
Allir við góða heilsu hér og meira að segja stundum við of góða heilsu... hvaðan kemur öll þessi orka í þessum börnum? Og ég get prjónað aftur :D bara næs.

Wednesday, February 01, 2006

Money money money!!

jú jú, mín bara rík... alveg í 20 mínútur eða svo... og þá bara hurfu peningarnir :'( mikið asskoti er leiðinlegt að vera fullorðin... barnabæturnar hækkuðu þó aðeins, svo ég brosi út í annað allavegana.

En ég fór í Bónus áðan og búin að byrgja mig vel upp af allra helstu nauðsynjavörum... og.. svo ónauðsynjavörum sem hreinlega DUTTU bara oní körfuna. Svo þessi árans fuglaflensa verður að drífa sig á meðan ég á fullt af drasli í skápunum.

Eníveis.. gigtin er góð, letin er verri, þú ert perri.. nei nei bara grínur.
Langar svo að horfa á geðveikt góða bíómynd í kvöld, ár og dagar síðan í náði að tolla yfir heilli mynd. Einhverjar hugmyndir??? Ekki eikkað leim eins og "Top gun" eða Dirty dancing" vil alvöru mynd og nýlega mynd!

Jæja nóg af bulli í bili, krakkarnir að bilast á öllu þessu athyglisleysi.

Tuesday, January 31, 2006

News flash!!!

Fékk símtal að norðan, og húsið sem ég er svo hrifin af er hér með komið í sölu!!
Dísus kræst, ég gæti bara verið á leið í sveitina loksins :)
Tek kannski rúnt á Skagaströnd um helgina og skoða betur. einbýli, stór garður, tvöfaldur bílskúr og 4 svefnherbergi. Vantar bara kall og hund :D

Dagur 1

Jæja, þá er maður komin í bloggið, fékk þessa fínu kennslustund í gærkvöldi þegar hún Bjarney sýndi mér allt sem kunna þarf og dansaði um lyklaborðið eins og hún hefði aldrei gert annað.

Dagurinn byrjar rólega hérna, krakkarnir þræta á rólegu nótunum og kvarta eins og tvær vel stilltar klukkur um það hve erfitt er að klæða sig sjálfur. Jói kann sko alveg á mig, tilkynnir það reglulega að hann sé of lítill til að gera hlutina sjálfur, og segir mér svo hvað ég sé sæt og góð og besta mamma í heimi :) og það audda svínvirkar, hann er nebbla ótrúlegur sjarmör og mamma bráðnar og kemur hlaupandi með fötin.

Annars lítið að gerast, nema það að ég keypti nýja þvottavél fyrir helgi, sú eldri fór að hiksta eitthvað, sennilega orðin þreytt. Nýja vinnukonan er glæsileg, með digital skjá svo ég sjái nú hvað hún er snögg að þessu. Svo nú þvær maður í mínútum og Sigurbjörg hleypur reglulega inn í þvottahús og æpir töluna á skjánum... hún hlýtur að fá leið á því fljótlega... eða það vona ég...hehe!

well well.. er þetta ekki fínt í bili? Er svo að reyna að smita litlu systir af bloggveirunni og fá hana til að prufa!! Áfram Tóta!!!!

Monday, January 30, 2006

fréttir!

Jibbííííí ég er mætt!!!