Sunday, May 25, 2008

Kissimmee Florida

Þá fer að koma að því óumflýjanlega... ég þarf að fara í flugvél :( það þýðir að ég sit í 7 klukkutíma teljandi skrúfurnar á vængjunum svo það sé öruggt að það vanti enga, fylgjast með hreyflunum, fylgjast vel með flugfreyjum og flugþjónum við hvern hristing til að athuga hvort brosið hjá þeim hverfur, því þá fer ég að fá áhyggjur. Og svo þetta venjulega, telja neyðarútganga, og fríka út þegar flugstjórinn segir okkur að spenna beltin því von er á ókyrrð í lofti!!!!

En svona burtséð frá því, er ég bara nokkur spennt, og er rétt að leggja af stað suður.
Þið sem voruð hérna hjá mér í gærkvöldi, takk fyrir FRÁBÆRT kvöld :D Ég skemmti mér alveg ofboðslega vel, mikið sungið og síðan dansað í kántrýbæ á eftir. En það kom svo að því að fæturnir vildu fara heim á undan mér, svo ég haltraði heim alsæl :)

Set kannski inn eina eða tvær færslur frá ameríkunni ef ég get.

gúbbæ

Sunday, May 18, 2008

Og lífið heldur áfram

Það er svo margt sem ég gæti sagt hérna núna.... margt sem liggur þungt á okkur fjölskyldunni þessa dagana. Þrátt fyrir vel heppnaða tónleika, varði sú gleði ekki lengi, þar sem það var rifið niður framan í okkur næsta dag. Við látum ekki bugast, bróðir okkar þakkaði okkur fyrir það sem við gerðum fyrir hann, konuna hans og börn, og það er það eina sem skiptir máli. Ég myndi glöð gera þetta allt aftur fyrir hann.
Get ekki sagt mikið meira um það mál... og til hvers....?
Læt fylgja með tilvitnun við hæfi
Góða nótt.


"Everyone has a right to be stupid; some people just abuse the privilege"

Friday, May 16, 2008

Vel heppnað tónleikahald

Þetta gekk held ég bara ágætlega allt saman í gærkvöldi :) fullt af fólki lagðist á eitt um að gera þeim Jóni Gunnari og Guðrúnu lífiið léttara á meðan hann er að einbeita sér að því að ná bata.
Við erum öllum innilega þakklát.
Ótrúlegt hvað svona breytir hjá manni viðhorfi til lífsins. Þetta hefur fært okkur systkinin nær hvort öðru og styrkt okkar samband. Ég gerðist mjög hugrökk og söng lag ALEIN....jæks :) úff, það var svona oggu pínu hnútur í maganum, en ég hugsaði til litla bróður allann tímann, enda sérstaklega saminn ofsalega fallegur texti fyrir hann við fallegt lag. Það klöppuðu meira að segja næstum því allir :)
Kórinn okkar Lindu, Samkórinn Björk, er okkur orðin nánast eins og lítil fjölskylda, dásamlegt fólk og frábær kórstjórnandi sem gerir allar æfingar léttar og skemmtilegar, og ekki má gleyma undirleikaranum, ég verð alltaf græn af öfund þegar hann spilar, þvílíkur snillingur.
Það var eiginlega sama hvert við leituðum, allir vildu eitthvað gera til að hjálpa og æðislegt að sjá hvað við eigum mikið af hæfileikaríku tónlistarfólki hérna á ströndinni.

Börnin mín voru útkeyrð í morgun, þau vöktu til hálftólf í gærkvöldi, voru með okkur á tónleikunum. Sigurbjörg spilaði á píanóið á tónleikunum ásamt börnunum hennar Lindu sem spiluðu á sín hljóðfæri og Jónu Margréti systur Guðrúnar sem spilaði líka á píanó.

Jæja, læt þetta duga í bili.

Wednesday, May 14, 2008

Styrktartónleikar á morgun!

Þá er að koma að þessu hjá okkur, eftir mikinn undirbúning. Linda greyið orðin rauðeygð af þreytu og liggur við að maður sjái farið eftir símtólið á eyranu á henni, hehe :) Linda hörkutól hefur tekið að sér að skipuleggja þetta allt og setja niður dagskrá og leita eftir fjárstuðningi vítt um landið fyrir Jón Gunnar og fjölskylduna hans. Við Þórunn gerum bara eins og okkur er sagt þegar við fáum úthlutað verkefnum, kunnum þetta bara alls ekki, en lærum mikið af þessu öllu og gerum okkar besta.
Ég vona að allir taki sig saman um að mæta annaðkvöld, þetta verður örugglega mjög skemmtilegt, enda margir að leggja fram sína vinnu og tíma fyrir gott málefni.

Jón Gunnar er komin af stað í endurhæfingu á Grensás, en annars hef ég ekki séð hann í dáltinn tíma núna :( erfitt að vera svona langt í burtu, hefði verið svo gott að geta fylgst með framförum hjá honum og heimsótt hann. Ég fer reyndar til hans eftir ca. 10 daga, því ég er að fara með börnin til Flórída í enda þessa mánaðar. Pabbi krakkana, amma og afi bjóða þeim út, og var allt bókað og greitt í september eða október, svo það hefur verið löng bið hjá þeim. Verðum í 18 daga í steikjandi hita geri ég ráð fyrir. Þarf svo að fara beint í aðgerð hjá tannsérfræðingi þegar ég kem heim :/ fer að fá restina af brosinu aftur loksins :)

Jæja, Jói kominn heim úr skólanum og argar á athygli, þau voru ekki lítið kát þegar ég stökk útá trampólínið í gær og hoppaði og skoppaði þangað til lappirnar urðu að brauðfótum, skjögraði svo inn og hrundi niður í sófann.

Friday, May 09, 2008

Gettu nú!

How many animals do I have if all but 3 are dogs, all but 3 are cats, all but 3 are pigs and all but 3 are cows?

Monday, May 05, 2008

Umferðamiðstöðin Sunnuvegi og fleira.

Já það er sko aldeilis engin lognmollan hér á bæ þessa dagana. Aron frændi er hjá okkur í 4 eða 5 daga og Þoka litla trítlaði með, hún er alveg dásamleg þessi hundur, hlýðir öllu og ofsalega mikil kelirófa og krútt...þangað til ég gómaði hana uppi á stofuborði að klára af diskunum hjá krökkunum, ha ha :D ....arrg, mig langar svo að eiga hund :( En það er ekki til umræðu, ég get ekki tamið dýr, reyni sem best að temja börnin, það gengur svona upp og ofan :)
Í gær voru hérna 6 börn, 1 hundur, 1 hamstur, 1 sérvitur páfagaukur og ég og Páll með te í bolla og reyndum bara að anda djúpt... hehe, það tókst ágætlega bara, hann hefur róandi áhrif.....sko Páll... þó tebollinn sé nú líka góður ;D Þetta var bara mjög gaman, krakkarnir rápuðu út á trampólín og inn aftur ca. trilllllllljón sinnum, ég lokaði hurðinni á eftir þeim eins og vel þjálfaður dyravörður.

Jón Gunnar bróðir tekur lítil skref upp á við með hverjum deginum, reyni svona að fá fréttir af honum eins og hægt er, skilst að hann sé farin að borða og tala, sé aðeins farin að stíga í fæturna með góðri hjálp og segir öðru hvoru að hann vilji fara heim. Greyið, hann er sko örugglega komin með nóg af spítalavistinni og langar bara heim. En Guðrún er mikið hjá honum og hvetur hann áfram, eins hafa pabbi hans, mamma og Ragnar bróðir verið hjá honum frá fyrsta degi og hafa íbúð í bænum svo þau hafi stað til að vera á saman, þökk sé Sigurpáli sem brást skjótt við þegar ég spurði hvort hann gæti nokkuð gert eitthvað fyrir þau með það mál. Það liðu varla 2 tímar þar til hann hringdi í mig og sagði að málinu væri bara reddað. Það var þvílíkur léttir því við vorum öll á víð og dreif um höfuðborgarsvæðið fyrstu dagana og það var mikið vesen að keyra útum allt og sækja alla hingað og þangað. Reyndar buðu okkkur allir fyrir sunnan sem við þekkjum svefnpláss, sem bjargaði okkur fyrstu dagana, eða þar til við fengum íbúðina. Við systurnar þrjár erum svo allar með börn og bú hérna fyrir norðan, svo við getum ekki verið eins mikið hjá honum, það þarf að sinna skóla, mjólka kýr og taka á móti kálfum og lömbum. En Tóta og Bjössi fóru suður í gær með Elísu og Sindra í meira læknavesen, vonum að það gangi allt vel.

Gigtin mín er aðeins að plaga mig, mátti ekki sprauta mig eða taka krabbalyfin í 2 eða 3 vikur um daginn, það er víst stranglega bannað ef maður fær flensueinkenni eða hita að taka þessi lyf. Svo þá er erfiðara að sofa og puttarnir mjög aumir. Svo hjálpar það ekki mikið heldur þegar bitur maður sendir lögfræðing á eftir mér til þess eins að klekkja á mér og valda vanlíðan. Svo ég hef þurft að ráða mér lögfræðing líka sem kostar nú ekki lítið skilst mér. Alveg merkilegt hvað fólk er ósvífið, ég fékk þetta líka skemmtilega hótunarbréf frá lögfræðingnum hans á afmælisdegi bróður míns sem lá þungt haldinn á gjörgæslu. Þetta er svo mikil vitleysa og rugl að ég skil bara ekki hvernig svona menn fá inngöngu í Frímúrararegluna. Get ekki ímyndað mér að þeir samþykki þetta þar, að ráðast að einstæðri veikri móður sem hefur engin fjárráð til að verja sig.
Svo hér eftir, þið sem komið í heimsókn til mín, þá kostar kaffibollinn 1000kr. Að sitja í sófanum mínum kostar 2200 eitt kvöld, innifalið í því er afnot af sjónvarpinu. Aðgangur að salerni kostar 1500 og innifalið í því eru tvö blöð af wc pappír, handsápa og afnot af handklæði. Aðstaða fyrir reykingar er öllu dýrari og kostar 5000 að reykja sígarettu í þvottahúsdyrunum mínum vegna mengunar, en innifalið í því er reyndar hreinsun á sígarettu stubbum útum allan garð. Þetta er semsagt það helsta af verðlistanum, en lengi mætti telja!!!
Sem betur fer trúa því nú fáir hérna að ég sé slíkt glæpakvendi og þessi maður reynir af öllum mætti að dreifa hér um bæinn. Ég veit það líka best sjálf að illa innrætt er ég ekki og mun aldrei nokkurn tíma leggjast eins lágt og þessi umræddi maður er að gera.

En að öðru, því við hin erum öll að leggjast á eitt að styðja litla bróður og til stendur að halda styrktartónleika hér á Skagaströnd þar sem ýmsir góðir listamenn leggja fram sína vinnu alveg frítt, og ætlar til dæmis allur kórinn minn sem hefur mikið reynst okkur Lindu vel með yndislegum hvatningarorðum og hlýhug, að koma og syngja, og var einróma samþykki í þeim hópi að hjálpa til. Börnin okkar í fjölskyldunni spila svo á sín hljóðfæri líka og eru mjög spennt. Undirleikari og kórstjórnandinn okkar leggja fúsir fram sína vinnu og einnig fleira tónlistarfólk hér á ströndinni. Ætlum að hafa einhvern aðgangseyri sem allur rennur síðan beint til Jóns Gunnars og hans fjölskyldu sem fer stækkandi :) og hvur veit nema við systurnar lumum á einhverjum hæfileikum líka ;) Þetta er allavega í vinnslu og við vonum svo innilega að vel takist til og allir mæti, því þetta er eitthvað sem þau Guðrún og Jón Gunnar þurfa svo sannarlega á að halda því nú tekur við hjá honum löng endurhæfing, sem við biðjum fyrir að skili góðum árangri, og á meðan á endurhæfingu stendur þarf konan hans ekki bara að hugsa um tvö lítil börn, heldur þarf hún líka að fæða þriðja barnið í haust.

Jæja þetta er nóg í bili fyrir mína fingur að skrifa svona snemma að morgni :)
Læt svo vita í vikunni hvernig gengur að undirbúa tónleikana. Hún Linda mín er slíkur jaxl í svona málum að hún er með allt skipulag á hreinu og útum allt að tala við alla og redda öllu, hún er alveg ótrúleg þegar kemur að svona málum, og var reyndar strax orðin svona rösk, varla 7 ára þegar hún reddaði mömmu íbúð til að leigja!! Held ég eitt af fáum skiptum sem móðir mín varð orðlaus, hehe :)