Tuesday, February 26, 2008

Snjómokstur afmæli og fleira







Elsku Bjarney mín! Mér varð svo hugsað til þín rétt áðan þegar ég barðist í gegnum skafla með snjóskóflunni minni, til þess eins að komast inn í bílskúrinn!!! Hafði það af, ekki veit ég hvernig ég fór að því, með mína morgunstirðu putta. En semsagt, hér er paradís á jörðu fyrir "snjóskóflufíkla" ha ha ha :D



En ég var nú sko aldeilis ekki sloppinn, rúllaði bílnum og náði að snúa honum við á bílastæðinu (er með tvöfalt plan og tvær bílskúrshurðir) tók svo gott tilhlaup og bjó vel og vandlega um bílinn í góðum skafli :) Svo fór um "snjóferð þá! En í því kom súperman á bláum Bens, sem þrátt fyrir að ætti að vera komin á antik-bíla-safn, flaug í gegnum skaflana og bjargaði börnunum í skólann.


Börnin voru hjá pabba sínum yfir helgina, og ég sótti þau upp á heiði í gær, sem gekk bara mjög vel alveg þar til ég átti ca. 10 mín heim, en þá allt í einu sá ég bara ekki glóru. Það varð gjörsamlega alveg blint og ég komin niður í 20. Vá, þvílíkar veðurbreytingar á einni mínútu!

Svo langt síðan ég bloggaði að ég hreinlega man bara ekki hvað ég ætlaði að skrifa meira.

Jú, reyndar átti dóttir mín afmæli um daginn, ég set hérna einhverjar myndir með. Þetta var drauma afmælið hennar, stóð í nánast sólarhring, veisla seinnipart dags sem hélt svo áfram fram eftir kvöldi með náttfatapartýi, dömudekri, popp, kók og bíómynd og svefnstæði í stofunni fyrir 7 pæjur. Morguninn eftir hélt þetta áfram, hárgreiðslur myndataka, súkkulaðikaka og rjómi. Það voru mjög svo hamingjusamar stelpur sem kvöddu rétt eftir hádegið. Mín von var að ná að þjappa saman aðeins þessum stelpum og mynda betri vinkonu tengsl.

Píanónámið er í góðum gír. Ég æfi mig nokkrum sinnum á dag í styttri tíma í stað þess að taka tvo tíma í einni lotu. Fingurnir þola það ekki vel. En ég er dottin ansi vel aftur úr, og ætla að taka á þessu eins vel og ég get. Svo er kórinn minn að fara í upptökur, það á að smella nokkrum lögum á geisladisk. Virkilega skemmtilegt og frábær hópur af fólki.