Monday, November 17, 2008

Komin aftur.... aftur

Það hlaut að koma að því, enda ekki svo flókið mál að pikka inn nokkur orð hérna... hefði maður haldið.
Eitthvað af vatni hefur nú runnið til sjávar frá síðustu skrifum. Drengurinn minn orðinn 8 ára og Carmen bráðum 10 mánaða hárbolti.
"KREPPA" er orðið eitt útjaskaðasta orð allra tíma! En um leið er þetta litla orð að verða að óþægilegum raunveruleika og aurskriðan rífur mann með.

Við héldum upp á afmælið hans Jóa um daginn. Það var bara mjög skemmtilegt, hann vildi bara halda fjölskylduboð, og bauð frændum og frænkum í ís-partý. Náðum næstum því að bjóða Róru frænku og krökkunum líka, en vorum aðeins of sein. Hún gjörsamlega HANGIR hérna á ströndinni þetta árið, er eins og jójó sem vill ekki bila. :D ha, ha, ha!!!

Kór og tónlistarskóli er farið á fullt. Sigurbjörg heldur áfram á píanóinu og ég í kór og söngnámi.

Ég er óþægilega minnt á að jólin nálgast í hvert sinn er ég tala við Tótu systur. Konan er að tapa sér í jólabakstri og hreingerningu, og ég er nokkuð viss um að sortirnar eru að nálgast 10.
Ég og Ragnar mætum til skiptis til að taka stöðuna og safna sýnishornum :) he he.

Jæja, þetta er ágætt svona til að byrja með, vil ekki ofgera mér á lyklaborðinu.

Thursday, July 17, 2008

Carmen





















Hún Carmen okkar er 5 mánaða, alveg dásamleg, og svo skemmtilega vill til að hún og Sigurbjörg eiga sama afmælisdag :D

Flórída myndir




Tvær góðar frá ameríkunni, krakkarnir í sundlauginni (vantar reyndar Goða á myndina) og síðan frænkurnar í parísarhjólinu í Cypress gardens. Ótrúlega gaman!

Friday, July 11, 2008

Desperate bachelor !

Góð hugmynd að mjög svo lélegum raunveruleikaþætti, en hægt að gera nokkuð áhugavert með góðu "lögfræði-drama" Auðvitað verður alltaf að vera ein "evil malicious bitch" í hverri þáttaröð. Hún vefur honum um fingur sér og endar svo á að hafna greyinu eftir ítrekaðar tilraunir hans í ca. 12 þáttum til að gera hosur sínar grænar með öllum tiltækum ráðum. Dr. Phil kemur í þáttinn til að auka vinsældirnar aðeins því auðvitað er aumingja piparsveinninn afar illa farinn eftir tíkina, sem greinilega er hörð í horn að taka og gefur sig ekki að sveininum eins og hann hafði áætlað. Tíkin tapar að sjálfsögðu í endann, annað myndi ekki nokkur amerískur þáttaframleiðandi sætta sig við. Dómari kveður upp úrskurð og tíkin fær dóminn!! Hún er dæmd í 15 ára hjónaband með sveininum fagra sem fær áhorfendur til að stökkva upp úr sætum sínum með húrrahrópum. Piparsveinninn stendur, ber að ofan með sigurbros á vör og sígarettu í kjaftinum.


Svona er þetta, kaldhæðnin kitlar mann stundum og reiðin þarf útrás.

ps. Farið gæti svo að fallegt hús verði til sölu í byrjun vetrar, nánar auglýst síðar í nauðungaruppboðum.

Wednesday, July 09, 2008

Heimasætan sæta



















Svo falleg hún dóttir mín. Mikil listakona, róleg og góð.
Þetta er svona "mont" blogg, það má alveg stundum ;D

Monday, July 07, 2008

Heima er best








Við erum auðvitað komin heim. Bara ekki nennt að blogga þó alltaf sé frá nógu að segja samt :)

Róra frænka er búin að vera í heimsókn með Henry og Fríðu Kristínu yfir helgina, þau gistu hjá Þórunni og fóru í labbitúra með prinsessurnar í kerrum og kíktu á okkur öðru hvoru. Svo tókum við eitt kvöld, ég og Linda og sátum hjá þeim og hlógum þar til tárin runnu :D alltaf fjör þegar við hittumst.

Það var ósköp gott að koma heim auðvitað, langbest á Íslandi að sjálfsögðu. Hrundi reyndar niður í gigtinni eftir heimkomuna, mátti ekki nota sprauturnar þar sem ég þurfti að fara í aðgerð hjá tannlækni, en er núna komin á lyfin aftur og allt að koma.

Hef aðeins farið út að hjóla með krökkunum öðru hvoru, ég passa einhvern veginn betur á hjólið eftir að kílóin láku af mér. En þá á maður allt í einu engin föt!!!

Annars ekki mikið merkilegt að frétta.... allavega ekki sem hægt er að ræða opinberlega.... ég er svosem misjafnlega vel liðin hérna á ströndinni, það hafa allir rétt á að mynda sér sína eigin skoðun á hlutunum og ekki alltaf allir á sama máli, en svona er lífið, það heldur samt áfram.

tók nokkrar myndir síðustu daga, og þarna er Jói að hlaupa með krökkunum í garðinum, úðarinn í gangi og allir rennblautir. Svo set ég líka myndir af furunni minni, var að flytja hana og þennann 50kg stein líka til að skýla henni. Er að vona að frú Steinunn samþykki þetta "lúkk" og segi mér hvað ég á að setja þarna með. Er að hugsa um að skreppa í Borganes og ná mér í plöntur á næstunni. Ég þurfti að fá krakkana í bæjarvinnunni til að slá grasið eftir að ég kom heim að utan, ég hefði engan veginn ráðið við þetta sjálf. Þau gerðu þetta með sóma, unnu vel saman og voru snögg að þessu, ég þakka mikið fyrir.

Friday, June 13, 2008

Disney hrakfarir

Þá erum við á síðasta deginum okkar, eða nánast, því morgundagurinn fer mest í að pakka og ganga frá húsinu.

Við fórum í Disney garðinn í gær, sem var reyndar tilraun númer 2 til að skoða þennann fræga garð. Fyrra skiptið fór alveg í vaskinn, því það fór að hellirigna hálftíma eftir að við komum þar inn. Ég var nú ekki að skilja hversvegna fólk fór að tvístrast í skjól við nokkra dropa í þessum fína hita.....greinilega ekki komið til Íslands sko, þar sem við harðjaxlar látum ekki smá rigningu trufla daginn..... en fattarinn fór í gang mínútu seinna þegar sturtaðist eins og úr fötu yfir okkur og ég leit helst út fyrir að vera þátttakandi í misheppnuðustu blautbolakeppni allra tíma!!!
við semsagt flúðum þegar það leit ekki út fyrir að myndi stytta upp, og fengum leyfi til að koma aftur annann dag í staðinn.

Í gær fórum við svo aftur, og alla leiðina sáum við eldingar og heyrðum drunurnar í þrumunum, en það ringdi nú bara létt. En ég ákvað samt að fá mér regnslá til að ekkert myndi klikka þetta skiptið. Um leið og ég smeygði yfir mig 7 dollara regnflíkinni, snarhætti að rigna og ringdi ekki meir :)
Við eyddum svo deginum í að þramma fram og til baka, skoða sýningar og disney búðir, enduðum svo á að sjá ógleymanlega skrúðgöngu og alveg geggjaða flugeldasýningu.
Svona um það leyti sem við fórum að rölta til baka fór ég að haltra, enda búin að labba ansi mikið og standa í biðröðum. Við tókum ferju til að komast að hliðinu ( þetta eru svaðalegar vegalengdir þarna) og ferjuferðin tók nokkrar mínútur. Þegar við gengum út úr ferjunni fóru fæturnir að gefa sig og hreinlega beygluðust undan mér. Eftir að ég hafði tvisvar næstum hrunið á rassinn var tekið á það ráð að böggla mér ofaní hjólastól og rúlla mér þannig út. Það er semsagt farið að segja aðeins til sín að hafa ekki tekið sprauturnar með mér út. En þetta er nú bara pínu fyndið svona eftir á.

Ég keypti mér gítar hérna, eitthvað sem ég var búin að ákveða fyrir þó nokkru að gera. Yamaha svakalega flottur og mjúkur og þægilegt að spila á hann og góður hljómurinn líka! Fékk þennann grip í "Carlton music center" og hann Jim sem seldi mér gítarinn var alveg í skýjunum yfir því að hafa í fyrsta skipti fengið íslendinga inn í búðina og ætlaði aldrei að geta kvatt þó búið væri að loka búðinni. Hef lítið getað prufað hljóðfærið þar sem fingurnir eru vel ringlaðir þessa dagana og vísa allir í sitthvora áttina, :D hahaha!!!!

Sjáumst á klakanum, og það er eins gott að hún Lóa mín sé á lífi ÞÓRUNN ELFA!!!

Tuesday, June 03, 2008

sól og sæla

Hæ hæ, tók mér smá pásu frá sólinni. Alveg rosalega gaman hérna og allt upp í 35 stiga hiti. Fengum reyndar góða sturtu hérna úti í gærkvöldi, náttla akkúrat þegar við grilluðum úti svona í fyrsta sinnið hér, en það var bara kósí.
Erum búin að fara í skemmtigarð sem heitir cypress gardens, skemmtum okkur þar heilan dag í tívolítækjum og enduðum á sundinu, þetta er svona blanda af öllu þarna. Eigum eftir að fara í Disney world, seaworld og eitthvað meira. En það sem mér finnst það allra flottasta er að við ætluðum að skoða Kennedy space center, en þegar við nálguðumst staðinn var allt í einu allt í löggum og öryggisgæslu og svaka umferð. Við komumst þá að því að það voru tveir tímar í að yrði skotið upp flaug þarna á Cape Canaveral, með henni var að fara viðgerðar-teymi til að laga stíflað klósett í geimstöðinni þarna uppi, hehe :D nei, ég er ekki alveg viss, en þetta var eitthvað neyðarkall eftir viðgerð skilst mér. Við höfðum semsagt tvo tíma til að koma okkur fyrir og VÁ, það var sko þess virði, þvílík upplifun, stærsta raketta sem við höfum séð!!

Þetta er svona það helsta, við öll orðin kaffibrún hérna, enda með einkasundlaug og glæsilega aðstöðu.

Vona að allir hafi það gott heima, ég hlakka ekki til að fljúga heim, þó mig hlakki nú samt til að koma heim :) en ég lifði af ferðina hingað, svo ég hlýt að hafa það af til baka líka :D paranoja alltaf hreint.

Kær kveðja frá öllum hérna í "sunshine state"
og ég reyni að skrifa meira seinna.

Sunday, May 25, 2008

Kissimmee Florida

Þá fer að koma að því óumflýjanlega... ég þarf að fara í flugvél :( það þýðir að ég sit í 7 klukkutíma teljandi skrúfurnar á vængjunum svo það sé öruggt að það vanti enga, fylgjast með hreyflunum, fylgjast vel með flugfreyjum og flugþjónum við hvern hristing til að athuga hvort brosið hjá þeim hverfur, því þá fer ég að fá áhyggjur. Og svo þetta venjulega, telja neyðarútganga, og fríka út þegar flugstjórinn segir okkur að spenna beltin því von er á ókyrrð í lofti!!!!

En svona burtséð frá því, er ég bara nokkur spennt, og er rétt að leggja af stað suður.
Þið sem voruð hérna hjá mér í gærkvöldi, takk fyrir FRÁBÆRT kvöld :D Ég skemmti mér alveg ofboðslega vel, mikið sungið og síðan dansað í kántrýbæ á eftir. En það kom svo að því að fæturnir vildu fara heim á undan mér, svo ég haltraði heim alsæl :)

Set kannski inn eina eða tvær færslur frá ameríkunni ef ég get.

gúbbæ

Sunday, May 18, 2008

Og lífið heldur áfram

Það er svo margt sem ég gæti sagt hérna núna.... margt sem liggur þungt á okkur fjölskyldunni þessa dagana. Þrátt fyrir vel heppnaða tónleika, varði sú gleði ekki lengi, þar sem það var rifið niður framan í okkur næsta dag. Við látum ekki bugast, bróðir okkar þakkaði okkur fyrir það sem við gerðum fyrir hann, konuna hans og börn, og það er það eina sem skiptir máli. Ég myndi glöð gera þetta allt aftur fyrir hann.
Get ekki sagt mikið meira um það mál... og til hvers....?
Læt fylgja með tilvitnun við hæfi
Góða nótt.


"Everyone has a right to be stupid; some people just abuse the privilege"

Friday, May 16, 2008

Vel heppnað tónleikahald

Þetta gekk held ég bara ágætlega allt saman í gærkvöldi :) fullt af fólki lagðist á eitt um að gera þeim Jóni Gunnari og Guðrúnu lífiið léttara á meðan hann er að einbeita sér að því að ná bata.
Við erum öllum innilega þakklát.
Ótrúlegt hvað svona breytir hjá manni viðhorfi til lífsins. Þetta hefur fært okkur systkinin nær hvort öðru og styrkt okkar samband. Ég gerðist mjög hugrökk og söng lag ALEIN....jæks :) úff, það var svona oggu pínu hnútur í maganum, en ég hugsaði til litla bróður allann tímann, enda sérstaklega saminn ofsalega fallegur texti fyrir hann við fallegt lag. Það klöppuðu meira að segja næstum því allir :)
Kórinn okkar Lindu, Samkórinn Björk, er okkur orðin nánast eins og lítil fjölskylda, dásamlegt fólk og frábær kórstjórnandi sem gerir allar æfingar léttar og skemmtilegar, og ekki má gleyma undirleikaranum, ég verð alltaf græn af öfund þegar hann spilar, þvílíkur snillingur.
Það var eiginlega sama hvert við leituðum, allir vildu eitthvað gera til að hjálpa og æðislegt að sjá hvað við eigum mikið af hæfileikaríku tónlistarfólki hérna á ströndinni.

Börnin mín voru útkeyrð í morgun, þau vöktu til hálftólf í gærkvöldi, voru með okkur á tónleikunum. Sigurbjörg spilaði á píanóið á tónleikunum ásamt börnunum hennar Lindu sem spiluðu á sín hljóðfæri og Jónu Margréti systur Guðrúnar sem spilaði líka á píanó.

Jæja, læt þetta duga í bili.

Wednesday, May 14, 2008

Styrktartónleikar á morgun!

Þá er að koma að þessu hjá okkur, eftir mikinn undirbúning. Linda greyið orðin rauðeygð af þreytu og liggur við að maður sjái farið eftir símtólið á eyranu á henni, hehe :) Linda hörkutól hefur tekið að sér að skipuleggja þetta allt og setja niður dagskrá og leita eftir fjárstuðningi vítt um landið fyrir Jón Gunnar og fjölskylduna hans. Við Þórunn gerum bara eins og okkur er sagt þegar við fáum úthlutað verkefnum, kunnum þetta bara alls ekki, en lærum mikið af þessu öllu og gerum okkar besta.
Ég vona að allir taki sig saman um að mæta annaðkvöld, þetta verður örugglega mjög skemmtilegt, enda margir að leggja fram sína vinnu og tíma fyrir gott málefni.

Jón Gunnar er komin af stað í endurhæfingu á Grensás, en annars hef ég ekki séð hann í dáltinn tíma núna :( erfitt að vera svona langt í burtu, hefði verið svo gott að geta fylgst með framförum hjá honum og heimsótt hann. Ég fer reyndar til hans eftir ca. 10 daga, því ég er að fara með börnin til Flórída í enda þessa mánaðar. Pabbi krakkana, amma og afi bjóða þeim út, og var allt bókað og greitt í september eða október, svo það hefur verið löng bið hjá þeim. Verðum í 18 daga í steikjandi hita geri ég ráð fyrir. Þarf svo að fara beint í aðgerð hjá tannsérfræðingi þegar ég kem heim :/ fer að fá restina af brosinu aftur loksins :)

Jæja, Jói kominn heim úr skólanum og argar á athygli, þau voru ekki lítið kát þegar ég stökk útá trampólínið í gær og hoppaði og skoppaði þangað til lappirnar urðu að brauðfótum, skjögraði svo inn og hrundi niður í sófann.

Friday, May 09, 2008

Gettu nú!

How many animals do I have if all but 3 are dogs, all but 3 are cats, all but 3 are pigs and all but 3 are cows?

Monday, May 05, 2008

Umferðamiðstöðin Sunnuvegi og fleira.

Já það er sko aldeilis engin lognmollan hér á bæ þessa dagana. Aron frændi er hjá okkur í 4 eða 5 daga og Þoka litla trítlaði með, hún er alveg dásamleg þessi hundur, hlýðir öllu og ofsalega mikil kelirófa og krútt...þangað til ég gómaði hana uppi á stofuborði að klára af diskunum hjá krökkunum, ha ha :D ....arrg, mig langar svo að eiga hund :( En það er ekki til umræðu, ég get ekki tamið dýr, reyni sem best að temja börnin, það gengur svona upp og ofan :)
Í gær voru hérna 6 börn, 1 hundur, 1 hamstur, 1 sérvitur páfagaukur og ég og Páll með te í bolla og reyndum bara að anda djúpt... hehe, það tókst ágætlega bara, hann hefur róandi áhrif.....sko Páll... þó tebollinn sé nú líka góður ;D Þetta var bara mjög gaman, krakkarnir rápuðu út á trampólín og inn aftur ca. trilllllllljón sinnum, ég lokaði hurðinni á eftir þeim eins og vel þjálfaður dyravörður.

Jón Gunnar bróðir tekur lítil skref upp á við með hverjum deginum, reyni svona að fá fréttir af honum eins og hægt er, skilst að hann sé farin að borða og tala, sé aðeins farin að stíga í fæturna með góðri hjálp og segir öðru hvoru að hann vilji fara heim. Greyið, hann er sko örugglega komin með nóg af spítalavistinni og langar bara heim. En Guðrún er mikið hjá honum og hvetur hann áfram, eins hafa pabbi hans, mamma og Ragnar bróðir verið hjá honum frá fyrsta degi og hafa íbúð í bænum svo þau hafi stað til að vera á saman, þökk sé Sigurpáli sem brást skjótt við þegar ég spurði hvort hann gæti nokkuð gert eitthvað fyrir þau með það mál. Það liðu varla 2 tímar þar til hann hringdi í mig og sagði að málinu væri bara reddað. Það var þvílíkur léttir því við vorum öll á víð og dreif um höfuðborgarsvæðið fyrstu dagana og það var mikið vesen að keyra útum allt og sækja alla hingað og þangað. Reyndar buðu okkkur allir fyrir sunnan sem við þekkjum svefnpláss, sem bjargaði okkur fyrstu dagana, eða þar til við fengum íbúðina. Við systurnar þrjár erum svo allar með börn og bú hérna fyrir norðan, svo við getum ekki verið eins mikið hjá honum, það þarf að sinna skóla, mjólka kýr og taka á móti kálfum og lömbum. En Tóta og Bjössi fóru suður í gær með Elísu og Sindra í meira læknavesen, vonum að það gangi allt vel.

Gigtin mín er aðeins að plaga mig, mátti ekki sprauta mig eða taka krabbalyfin í 2 eða 3 vikur um daginn, það er víst stranglega bannað ef maður fær flensueinkenni eða hita að taka þessi lyf. Svo þá er erfiðara að sofa og puttarnir mjög aumir. Svo hjálpar það ekki mikið heldur þegar bitur maður sendir lögfræðing á eftir mér til þess eins að klekkja á mér og valda vanlíðan. Svo ég hef þurft að ráða mér lögfræðing líka sem kostar nú ekki lítið skilst mér. Alveg merkilegt hvað fólk er ósvífið, ég fékk þetta líka skemmtilega hótunarbréf frá lögfræðingnum hans á afmælisdegi bróður míns sem lá þungt haldinn á gjörgæslu. Þetta er svo mikil vitleysa og rugl að ég skil bara ekki hvernig svona menn fá inngöngu í Frímúrararegluna. Get ekki ímyndað mér að þeir samþykki þetta þar, að ráðast að einstæðri veikri móður sem hefur engin fjárráð til að verja sig.
Svo hér eftir, þið sem komið í heimsókn til mín, þá kostar kaffibollinn 1000kr. Að sitja í sófanum mínum kostar 2200 eitt kvöld, innifalið í því er afnot af sjónvarpinu. Aðgangur að salerni kostar 1500 og innifalið í því eru tvö blöð af wc pappír, handsápa og afnot af handklæði. Aðstaða fyrir reykingar er öllu dýrari og kostar 5000 að reykja sígarettu í þvottahúsdyrunum mínum vegna mengunar, en innifalið í því er reyndar hreinsun á sígarettu stubbum útum allan garð. Þetta er semsagt það helsta af verðlistanum, en lengi mætti telja!!!
Sem betur fer trúa því nú fáir hérna að ég sé slíkt glæpakvendi og þessi maður reynir af öllum mætti að dreifa hér um bæinn. Ég veit það líka best sjálf að illa innrætt er ég ekki og mun aldrei nokkurn tíma leggjast eins lágt og þessi umræddi maður er að gera.

En að öðru, því við hin erum öll að leggjast á eitt að styðja litla bróður og til stendur að halda styrktartónleika hér á Skagaströnd þar sem ýmsir góðir listamenn leggja fram sína vinnu alveg frítt, og ætlar til dæmis allur kórinn minn sem hefur mikið reynst okkur Lindu vel með yndislegum hvatningarorðum og hlýhug, að koma og syngja, og var einróma samþykki í þeim hópi að hjálpa til. Börnin okkar í fjölskyldunni spila svo á sín hljóðfæri líka og eru mjög spennt. Undirleikari og kórstjórnandinn okkar leggja fúsir fram sína vinnu og einnig fleira tónlistarfólk hér á ströndinni. Ætlum að hafa einhvern aðgangseyri sem allur rennur síðan beint til Jóns Gunnars og hans fjölskyldu sem fer stækkandi :) og hvur veit nema við systurnar lumum á einhverjum hæfileikum líka ;) Þetta er allavega í vinnslu og við vonum svo innilega að vel takist til og allir mæti, því þetta er eitthvað sem þau Guðrún og Jón Gunnar þurfa svo sannarlega á að halda því nú tekur við hjá honum löng endurhæfing, sem við biðjum fyrir að skili góðum árangri, og á meðan á endurhæfingu stendur þarf konan hans ekki bara að hugsa um tvö lítil börn, heldur þarf hún líka að fæða þriðja barnið í haust.

Jæja þetta er nóg í bili fyrir mína fingur að skrifa svona snemma að morgni :)
Læt svo vita í vikunni hvernig gengur að undirbúa tónleikana. Hún Linda mín er slíkur jaxl í svona málum að hún er með allt skipulag á hreinu og útum allt að tala við alla og redda öllu, hún er alveg ótrúleg þegar kemur að svona málum, og var reyndar strax orðin svona rösk, varla 7 ára þegar hún reddaði mömmu íbúð til að leigja!! Held ég eitt af fáum skiptum sem móðir mín varð orðlaus, hehe :)

Tuesday, April 29, 2008

Litli bróðir 25 ára í dag

Til hamingju með afmælið Jón Gunnar minn :)

Í dag eru líka 24 ár síðan ég fermdist!! Getur það verið?? Tíminn líður hratt.
En síðustu 3 vikur hafa verið okkur ansi erfiðar :( Og harkaleg áminning um það hvað lífið er dýrmætt. Litli bróðir stendur sig eins og hetja, enda með eindæmum þrjóskur og sterkur. Opnar augun og setur upp þumalinn til að gefa okkur "ókei" merki! Hreyfir sig og brosir til okkar öðru hvoru. Hver einasta litla hreyfing eða tjáning er kraftaverk og sigur í okkar augum, enda var erfitt að kveðja hann síðustu helgi, hann var svo vel vakandi og hlustaði á okkur spjalla við sig og prufaði meira að segja að skrifa aðeins. Það var svo gaman að sjá hvað hann er að koma til baka, en góðir hlutir gerast hægt, og stuðningurinn hér í okkar litla samfélagi er ótrúlegur og ómetanlegur. Fólk greinilega stendur saman þegar á reynir.

Annars ekki mikið að gerast svosem, ætlum í kvöld að gera aðra tilraun til að taka upp þennann geisladisk okkar í kórnum, hin upptakan eyðilagðist. Jú og eitthvað er ég að skreppa saman þessa dagana, eða ca. 15kg eða svo :) þó varla sjáist högg á vatni, en eins og fyrr sagði, góðir hlutir gerast hægt. Hann Páll minn keypti handa mér eitthvað skrítið te fyrir liðina mína og býr til salat og eldar fisk :) algjör draumur í dós. Þetta te er búið til úr brenninetlum og fjölmörgum öðrum galdrajurtum, kostar ekki nema um 400kr. Hann sagðist ekkert ætla að skrifa það hjá sér, svo ég er nokkuð örugg um að fá ekki lögfræðihótanir eftir sopa af því seyði!!!

Thursday, March 13, 2008

Að keyra eða keyra EKKI útaf???

Jú, jú!! Þar sem ég er mikið náttúrubarn ákvað ég að tími væri kominn til að kanna ókunn svæði, og í slabbinu varð ég svo heppin að fá það einstaka tækifæri að renna mér útaf veginum, gegnum girðingu og gaddavír og inná næsta tún!! En ég sá enga mumu, þær eru líklega bara inni á veturna...minnir mig... eða var það meme? Jæja, ég sá allavega ekki mikið af náttúrunni, ekki einu sinni hoho!
Ég gæti kannski verið með "adrenalínfíklaheilkenni"? Ég hef nefnilega þá skrýtnu áráttu að þvælast yfir fjöll og heiðar á bensínlitlum, ef ekki bensínLAUSUM skrjóðnum :) ...skyldi ég ná....verð ég bensínlaus...?

En það eru bjartar hliðar á öllu. Ég fann allavega ástæðu til að blogga :D hahaha!!!

Tuesday, February 26, 2008

Snjómokstur afmæli og fleira







Elsku Bjarney mín! Mér varð svo hugsað til þín rétt áðan þegar ég barðist í gegnum skafla með snjóskóflunni minni, til þess eins að komast inn í bílskúrinn!!! Hafði það af, ekki veit ég hvernig ég fór að því, með mína morgunstirðu putta. En semsagt, hér er paradís á jörðu fyrir "snjóskóflufíkla" ha ha ha :D



En ég var nú sko aldeilis ekki sloppinn, rúllaði bílnum og náði að snúa honum við á bílastæðinu (er með tvöfalt plan og tvær bílskúrshurðir) tók svo gott tilhlaup og bjó vel og vandlega um bílinn í góðum skafli :) Svo fór um "snjóferð þá! En í því kom súperman á bláum Bens, sem þrátt fyrir að ætti að vera komin á antik-bíla-safn, flaug í gegnum skaflana og bjargaði börnunum í skólann.


Börnin voru hjá pabba sínum yfir helgina, og ég sótti þau upp á heiði í gær, sem gekk bara mjög vel alveg þar til ég átti ca. 10 mín heim, en þá allt í einu sá ég bara ekki glóru. Það varð gjörsamlega alveg blint og ég komin niður í 20. Vá, þvílíkar veðurbreytingar á einni mínútu!

Svo langt síðan ég bloggaði að ég hreinlega man bara ekki hvað ég ætlaði að skrifa meira.

Jú, reyndar átti dóttir mín afmæli um daginn, ég set hérna einhverjar myndir með. Þetta var drauma afmælið hennar, stóð í nánast sólarhring, veisla seinnipart dags sem hélt svo áfram fram eftir kvöldi með náttfatapartýi, dömudekri, popp, kók og bíómynd og svefnstæði í stofunni fyrir 7 pæjur. Morguninn eftir hélt þetta áfram, hárgreiðslur myndataka, súkkulaðikaka og rjómi. Það voru mjög svo hamingjusamar stelpur sem kvöddu rétt eftir hádegið. Mín von var að ná að þjappa saman aðeins þessum stelpum og mynda betri vinkonu tengsl.

Píanónámið er í góðum gír. Ég æfi mig nokkrum sinnum á dag í styttri tíma í stað þess að taka tvo tíma í einni lotu. Fingurnir þola það ekki vel. En ég er dottin ansi vel aftur úr, og ætla að taka á þessu eins vel og ég get. Svo er kórinn minn að fara í upptökur, það á að smella nokkrum lögum á geisladisk. Virkilega skemmtilegt og frábær hópur af fólki.












Wednesday, January 23, 2008

Dekrað við krílin
















Er búin að vera frekar slöpp og þreytt í nokkra daga, og það býr til nagandi samviskubit yfir því að geta ekki gert með krökkunum það sem þau eru að biðja um. Ligg í sófanum og hlusta á heimalesturinn fyrir skólann og reyni eins og ég get að láta þetta ekki bitna á lærdómnum hjá þeim. En svo birtir alltaf til og ég finn þarna einhversstaðar aukaorku :)
Við settum upp snyrtistofu hérna á Sunnuvegi, fyrir 3 útvalda mjög svo mikilvæga viðskiptavini :)

Set hérna myndir með, en svona til útskýringar, þá varð karlmaðurinn á heimilinu auðvitað að fá sitt dekur þó svo hann fengist ekki til að láta greiða og mála sig. En fótabað og fótanuddið sló alveg í gegn. Hann sagði mér að honum finndist hann varla vera með lappir því -þær eru svo léttar mamma!!! Með á myndum er hún Jóna Margrét, vinkona Sigurbjargar.

Svo í gær sátu hún Sigurbjörg og Valgerður vinkona hennar og föndruðu boðskort fyrir afmælið og fengu að nota allt skrappdótið mitt. Það þótti nú ekki leiðinlegt, þannig að ekkert boðskortið er eins. Þetta verður voða gaman. Vona bara að ég gleymi nú ekki að bjóða einhverjum eins og aumingja Tóta systir lenti í :( ekki gaman. Það náðist þó að redda því, svo það varð allt í fína.



Svona aðeins í lokin langar mig að segja nokkur orð um unga konu, Þórdísi Tinnu sem lést mánudaginn 21. janúar. Hef fylgst með blogginu hennar alveg örugglega í heilt ár. Kona sem ég þekkti ekki neitt hafði mikil áhrif á mig, hvernig getur maður kvartað þegar einstæð móðir berst fyrir lífi sínu til þess eins að fá örlítið meiri tíma með dóttur sinni? Sem er á svipuðum aldri og mín stelpa. Hún gerði lítið af því að kvarta sjálf, heldur lagði sig fram um að gera síðustu stundirnar eftirminnilegar fyrir stelpuna sína og það var alltaf stutt í húmorinn á því bloggi þó ég gæti vel séð að hún kvaldist. Þetta er víst gangur lífsins, en er orðin svo miklu sýnilegri með bloggsíðunum.


set inn myndir eftir afmælispartýið.

Tuesday, January 15, 2008

Jólin búin, komin heim!


Hæ hæ, það kom að því, ritstíflan gaf sig og þá er bara að nýta tækifærið :)

Við áttum alveg yndisleg jól í bænum, krakkarnir eins og blóm í eggi, athygli og dekur á hverju horni og jóla og matarboð útum allt, svo ekki sé minnst á alla pakkana líka :D semsagt draumajól bara hjá okkur öllum, því ekkert gleður mann meira en að sjá litlu krílin hamingjusöm auðvitað. Eitt kom mér skemmtilega á óvart í öllu búðarstressinu og kaupæðinu þetta árið, en það var þessi ótrúlega þjónustulund og góða viðmót hjá yfir höfuð öllu starfsfólki í þeim búðum sem ég þræddi þessi jól. Það virtist ekki vanta starfskraftana í búðunum né heldur viljann hjá þeim til að labba hálfa búðina til að hjálpa mér að finna það sem ég leitaði að. Td. sagði ég einni stúlkunni í Debenhams að ég væri búin að leita í allri smáralindinni af jólagjöf dóttur minnar en væri bara ekki að finna þetta, hún var svo elskuleg að benda mér á þessa æðislegu litlu götubúð í kringlunni sem hún vissi að hefði örugglega það sem ég leitaði að!!! Vona að þið hin hafið verið jafnheppin í þessum málum, því ekkert er jafnleiðinlegt og urrandi starfsfólk sem nennir ekki að sinna sínu hlutverki .

Ég keypti nýja náttsloppa handa krökkunum, sem sló í gegn á hærri mælikvarða en ég hafði reiknað með :) líka alveg rosa flottir! Pabbinn gaf þeim ipod -shuffle, sem er svona jafnstór og frímerki, en ótrúlegt nokk, þeir eru ekki týndir enn og hafa ekki einu sinni lent í þvottavélinni... enn sem komið er.

Ég fékk í jólagjöf það sem var efst OG neðst á mínum óskalista, alveg í skýjunum auðvitað. Guitar hero III var það sem mig langaði mest í. Svo ég, Morello og Slash höfum haft nóg að gera :D ég tók þá í nefið auðvitað, og er að safna kjarki í næsta levelið sem er "hard" og jább, það ER "HARD" !!!!

Síðan fékk ég í fyrsta sinn á ævinni dollara í jólagjöf, he he, það var svona öðruvísi en maður á að venjast, en góð ástæða fyrir því, við erum nebbla öll að fara til Flórída í sumar með krakkana.

Svo kom í heiminn litla frænka mín, 5. janúar! Þórunn og Bjössi eignuðust prinsessuna á Akureyri og það var víst draumafæðing, og Linda systir svo heppin að fá að vera viðstödd. Erum svona að reyna að gera upp við okkur hverjum hún líkist, þau breytast svo mikið fyrstu dagana, en mér finnst hún vera einhver blanda af mömmu sinni og Aroni. Allavega algjört krútt.

Já, já Róra mín, anda djúpt ;D það kemur að þér, hí hí. Ég man mjög vel hvað ég öfundaði Þórunni líka þegar hún var búin að eiga Aron og ég átti meira en mánuð eftir. Úff...

Við komum svo beint að sunnan í að rífa niður jólaskrautið vikuna eftir áramótin, og svo beint úr því í ælupest sem rúllaði hérna um staðinn eins og dominoskubbar!! Fall er fararheill er þaggi? Þetta ár hlýtur að verða bara mjög gott.
Ég þurfti svo sannarlega að leika hetju hérna á þrettándanum og sprengja RISA flugeld í fyrsta skipti á ævinni, skjálfandi úr hræðslu, þoli ekki sprengjur. En lét mig hafa það og lét flakka nokkrar litlar ýlur með, en ég dró mörkin við að halda á einhverjum flugvélum og kveikja í!!! Ég HELD sko ekki á sprengjunni á meðan ég kveiki í henni, bara bull!! Sonur minn sló mér nú samt við... skíthræddur við rokeldspýturnar, haha :D
og þverneitar að halda á stjörnuljósi.