Thursday, October 18, 2007

Kæra dagbók

Ég er svoooooo þreytt. Var að klára herbergið hennar Sigurbjargar, sem var skærbleikt, en er nú í fallegum mildum grænum lit. Búin að bora upp nokkrar hillur og setja upp fyrir hana snyrtiaðstöðu með gylltum prinsessu spegli sem Auður amma hennar átti, og ljósaseríu í kringum spegilinn. Get ekki annað en dáðst að eigin verki :) þetta er mjög flott og dóttir mín alveg í skýjunum yfir þessu öllu. Lakkaði líka gluggann hvítan og fataskápinn í leiðinni.

Annars er heilsan bara nokkuð góð, ég held áfram á þessum sprautum. Þetta var þannig fyrst að ég þurfti að blanda lyfinu sjálf saman við eitthverja saltlausn held ég, en síðan var því breytt og sprautan kom bara tilbúin, og ekkert mál. En svo fékk ég nýja sendingu í vikunni og þá er þetta aftur komið í fyrra form og ég auðvitað búin að gleyma öllu ferlinu. Það reddaðist á endanum þegar fattarinn fór í gang.

Ég og Linda systir ákváðum að skella okkur í kór og fórum á þriðjudagskvöldið á fyrstu æfingu vetrarins hjá samkórnum Björk, sem ég held alveg örugglega að sé blandað af fólki úr sveitunum hér í kring, Blönduósi, Skagaströnd og ef ekki Sauðárkróki líka. Þetta var alveg rosalega gaman og yndislegt fólk sem bauð okkur velkomnar :) Mér persónulega líkaði strax vel við að það er greinilega vel farið í lögin, fínpússað og gagnrýnt uppbyggilega í stað þess að rúlla úr einu í annað. Okkur var svo boðið í heimahús á eftir þar sem við fengum að heyra upptökur af lögum sem verið er að safna á geisladisk. Vel heppnað kvöld og ætlum sko hiklaust að halda áfram að mæta! Það er svo allt önnur saga hvernig börnin mín tóku í það að mamman ætlaði bara að rjúka út úr húsi þegar komið er kvöld!!! Hávær mótmæli, og ekki að ræða að fá einhverja barnapíu til að passa!! Ég hef nefnilega nánast aldrei farið frá þeim á kvöldin og þau örsjaldan verið í pössun hjá nokkrum nema ömmu og afa. Það kom þó annað hljóð í skrokkinn þegar ég sagði þeim að barnapían kæmist ekki og Andrea frænka (dóttir Lindu systur) ætlaði að sitja hjá þeim í staðin. Þeim finnst hún æðisleg, svo þau voru öruggari einhvernveginn, en ekkert voða góð að fara að sofa frétti ég :/

Ég talaði aðeins við skólastýruna okkar hérna og bauð mig fram í sjálfboðavinnu svona öðru hvoru svo langt sem heilsan nær. Ég get litið eftir krökkunum í gæslunni eftir skóla ef þarf og svona eitthvað sem til fellur nokkra klukkutíma í mánuði kannski. Stundum er ég bara mjög hress í nokkurn tíma, en daglega vinnu get ég bara ekki stundað, það tekur mig alveg 3 klukkutíma að komast í gang á morgnana.

Það er mikill spenningur hérna hjá okkur núna, hún Lóa páfagaukurinn okkar er að verpa eggjum og það eru komin tvö egg eins og er, en ég er að lesa mér til og má víst búast við 3-4 eggjum og allt upp í 6-7 jafnvel. Það líða ca. tveir dagar á milli þess sem eggin koma, svo ég fylgist vel með. Kallinn hennar, hann Spói sinnir svo kellunni sinni á meðan hún situr á eggjunum og færir henni mat þegar líða tekur að útungun. En hún gargar stundum á hann alveg brjáluð ef hann stingur hausnum inn í varpkassann þegar illa liggur á henni :D Bara alveg eins og hjá okkur mannfólkinu, hahaha :D Hann læðist í kringum hana og passar að vera ekki fyrir!

well well, farin í ullarsokkana góðu og upp í rúm með saumadótið.

gúd næt

4 comments:

Bjarney Halldórsdóttir said...

Frábærar fréttir. Greinilega mikið að gera.

Þú leyfir okkur að fá fleiri varp fréttir.

Refsarinn said...

Gott að heyra að gengur vel. Láttu svo sjá þig næst þegar þú átt leið í bæinn.

Anonymous said...

OMG egg og allt - núna verð ég sko að fara að kíkja í heimsókn.
Frábært hjá ykkur systrunum að skella ykkur í kórinn, þú ert nú soddan söngfugl þannig að þú og Lóa og Spói eigið eitthvað sameiginlegt hahaha......

Anonymous said...

...please where can I buy a unicorn?